Gúmmístígvél eru stígvél, oftast gerð úr gúmmíi eða PVC. Þau eru notuð þegar unnið er í bleytu, slabbi og óhreinindum eins og jarðvegi eða mykju, til að halda fótunum þurrum. Oftast eru þau hnéhá eða tæplega það. Hærri stígvél eru oft kölluð bússur eða klofstígvél.

Gúmmístígvél.

Upphaflega voru stígvél yfirleitt gerð úr leðri. Á 18. öld notuðu hermenn, þó einkum yfirmenn, hnéhá leðurstígvél með tá sem mjókkaði fram í odd og hentuðu því vel þegar setið var á hestbaki. Slík stígvél, sem kennd voru við Hesse í Þýskalandi, urðu einnig vinsæl meðal óbreyttra borgara. Um aldamótinn 1800 lét Arthur Wellesley, fyrsti hertoginn af Wellington, skósmiðinn sinn breyta slíkum stígvélum þannig að þau voru þrengri en áður og náðu aðeins upp á miðjan kálfa. Nýju stígvélin voru gerð úr mjúku kálfskinni og þóttu nógu fín til að hægt var að klæðast þeim í samkvæmislífinu. Þau urðu fljótt mjög vinsæl og voru nefnd eftir hertoganum og kölluð Wellington boots eða Wellingtons á ensku.

Árið 1852 fann Charles Goodyear upp aðferð til gúmmísuðu. Hiram Hutchinson keypti af honum einkaleyfi á framleiðslu skófatnaðar með þessari nýju tækni. Hann hóf fjöldaframleiðslu á stígvélunum í Frakklandi og þau urðu brátt geysivinsæl meðal almennings, sem þurfti sannarlega á vatnsheldum skófatnaði að halda við vinnu sína á ökrum, í námum, á sjó og annars staðar og hafði áður aðallega notast við tréskó. Í Englandi voru hin nýju gúmmístígvél þó áfram kennd við Wellington hertoga þótt þau ættu fátt sameiginlegt við stígvélin sem hann hafði látið skósmiðinn sinn gera.

Vinsældir gúmmístígvélanna jukust enn í fyrri heimsstyrjöldinni, þar sem þau komu sér mjög vel í bleytuslabbinu í skotgröfunum. Þau breiddust svo út um heiminn og eru sérstaklega vinsæl í norðlægum löndum, svo sem Kanada og á Norðurlöndum. Nefna má að áður en finnska fyrirtækið Nokia ruddi sér rúms á farsímamarkaði var það einna þekktast fyrir framleiðslu á gúmmístígvélum. Nú eru stígvélin einnig úr PVC og öðrum gerviefnum en eru þó oft kölluð gúmmístígvél. Græn og svört gúmmístígvél hafa löngum verið algengust en PVC-stígvél eru oft mjög litskrúðug og mynstruð, einkum þau sem ætluð eru börnum.

Á Íslandi fóru gúmmístígvél fyrst að sjást um eða rétt eftir aldamótin 1900 og voru orðin algeng um 1920. Þau hafa einnig verið nefnd vatnsstígvél og vaðstígvél.