Gáshnallur

(Endurbeint frá Gæsanefja)

Gáshnallur (fræðiheiti: Ziphius cavirostris) einnig nefndur skuggnefja og gæsanefja er allstór tannhvalur og eina tegundinn í ættkvíslinni Ziphius. Þeir eru hluti af ættinni svínhvalir (Ziphiidae). Ekkert annað spendýr hefur kafað jafn djúpt svo vitað er.

Gáshnallur
Strandaður gáshnallur
Strandaður gáshnallur
Samanburður á stærð gáshnalls og manns
Samanburður á stærð gáshnalls og manns
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki Animalia
Fylking: Seildýr Chordata
Flokkur: Spendýr Mammalia
Ættbálkur: Hvalir Cetacea
Undirættbálkur: Tannhvalir Odontoceti
Ætt: Svínhveli Ziphiidae
Ættkvísl: Ziphius
Tegund:
Z. cavirostris

Tvínefni
Ziphius cavirostris
G. Cuvier, 1823
Útbreiðslusvæði gáshnalla
Útbreiðslusvæði gáshnalla

Lýsing

breyta
 
Teikning af gáshnalli, sjá má tennurnar í neðrikjálka

Gáshnallur minnir á aðra svínhvali og eru tarfarnir heldur stærri en kýrnar. Þeir eru þéttbyggðir og straumlínulagaðir, bakuggi lítill og bægslin einnig fremur lítil og getur dýrið lagt þá þétt að skrokknum. Eins og hjá öðrum svínhvölum er sporðurinn fremur stór. Höfuðið er lítið og er á því óvægileg enniskúla. Nafn hvalategundarinnar á íslensku er dregið af laginu á trýninu. Fremst í neðrikjálka fullorðinna tarfa eru tvær alllangar tennur sem skaga út úr kjaftinum eins og undirbit.

Gáshallar eru að mestu dökkgráir en með ljósar höfuð sem getur verið næstum því hvítt hjá eldri törfum. Þar að auki er húðin alsett minni ljósum blettum. Stærstu dýrin verða 7-7,5 metra á lengd og get orðið allt að 3 tonnum á þyngd (þó oftst 2-2,5 tonn).

Útbreiðsla og hegðun

breyta

Gáshnallar er algengasta og útbreiddasta tegund svínhvala. Lítið er þó vitað um vistfræði þeirra, þeir halda sig fjarri skipum og halda til á reginhafi þar sem hafdýpi er mikið. Það er þó þekkt að þessir hvalir eru mjög góðir kafarar sem sennilega geta kafað niður á 2000 metra dýpi og kannski enn dýpra. Þann 17. október 2006 mældist gáshnallur sem kafaði niður á 1 899 metra dýpi[1]. Það tekur hvalinn um 20 sekúndur að endurjafna súrefnismagn líkamans eftir köfun áður enn hann getur kafað að nýju.

Helsta vitneskja um gáshnalla hefur fengist af rannsóknum á strönduðum dýrum. Greinilegt er að þeir nota bergmálsmiðun til að rata um hafdjúpin og til að leita ætis. Svo er að sjá að gáshnallar séu háðari þessari lífrænu bergmálsmiðun en aðrir hvalir og heimildir eru fyrir því að þeir hafi misst áttir og strandað vegna sónars frá fiskiskipum[2]. Þeir halda saman í hópum með 2 til 15 dýrum en það er ekki óvenjulegt að rekast á einstaka dýr. Gáshnallar hafa sést stökkva en það virðist þó vera fremur óvenjuleg hegðun. Ekkert bendir til þess að gáshnallar færi sig til eftir árstímum.

Gáshnallar eru algengir í tempruðum og hitabeltishöfum þar sem er mikið hafsdýpi (meira en 1000 metra dýpi). Það er sjaldgæft að sjá þessa tegund í nánd við strendur. Gáshnallar hafa sést við Ísland en afar sjaldan.

Þessi hvalategund lifir aðallega á kolkröbbum og öðrum hryggleysingjum.

Veiðar og fjöldi

breyta

Veiðar hafa aldrei beinlínis verið stundaðar á gáshnalli en japanskir hvalveiðimenn drepa um 20 dýr á ári í samband við veiði á öðrum hvölum. Tegundin er á Viðbótarlista II við samning um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu og er merkt að um hana séu ekki nægar upplýsingar á lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna - IUCN.

Neðanmáls

breyta
  1. «It's official: New free-diving record is 1,899 meters (6,230 feet)». Powered by CDNN - CYBER DIVER News Network by LEWIS SMITH
  2. Feeding ecology of Cuvier's beaked whale (Ziphius cavirostris): a review with new information on the diet of this species, höfundar M.B. Santos, G.J. Pierce, J. Herman, A. López, A. Guerra, E. Mente og M.R. Clarke í tímaritinu Journal of the Marine Biological Association of the UK (2001), Cambridge University Press

Heimildir

breyta