Friedrich List
Georg Friedrich List (6. ágúst 1789 – 30. nóvember 1846) var þýsk-bandarískur hagfræðingur. List er þekktastur fyrir hugmyndir sínar um nauðsyn verndartolla til að örva vöxt nýs iðnaðar til að gera honum kleift að keppa síðar á alþjóðlegum mörkuðum (enska: infant-industry protection). Hann var einn af fyrirrennurum þýska söguskólans, og höfundur fyrstu þrepakenningarinnar um hagþróun.
Ævi
breytaList fæddist í Reutligen, í Württemberg. Faðir hans var sútari. Í stað þess að feta í fótspor föður síns, sem var sútari, gekk hann til liðs við embættismannakerfi konungsríkisins Württemberg. List hafði enga formlega menntun, en hlaut skjótan frama og var árið 1817 skipaður prófessor í Kameralisma við háskólann í Tübingen. Kameralismi er skóli merkantilisma sem var ráðandi í Mið-Evrópu og Norðurlöndunum, en á 18. öld og framanverðri 19. öld voru þau fræði sem lutu að stjórn efnahagsmála nefnd kameralismi í þýskumælandi löndum. List gegndi embættinu aðeins í 2 ár, því 1819 var hann rekinn í kjölfar þess að frjálslyndir stjórnmálamenn sem höfðu haldið yfir honum hlífiskyldi og greitt götu hans, féllu í ónáð.
Friedrich var frjálslyndur í stjórnmálum. Hann var eindreginn stuðningsmaður þýsks tollabandalags og barðist fyrir stjórnarfarsumbótum. Hann skrifaði alfræðirit um stjórnmálafræði sem lýsti yfir stjórnarskrárbundinni frjálshyggju og átti þátt í Vormärz tímabilinu svokallaða. Ritið skrifaði hann með Karl von Rotteck og Carl Theodor Welcker og var það nefnt Rotteck-Welckersches Staatslexikon.[1] List sat á þingi Württemberg, þar sem hann barðist fyrir frjálslyndum umbótum, en var að lokum hrakinn úr landi og árið 1825 fluttist hann vestur um haf og settist að í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum.
Í Bandaríkjunum starfaði hann fyrst sem ritstjóri, varð umsvifamikill landeigandi, en gekk síðar til liðs við bandarísku utanríkisþjónustuna og var sendur til Leipzig sem konsúll árið 1934. Á næstu árum var hann fyrirferðarmikill í þýskri efnahagsumræðu, en líka efnahagslífi sem umsvifamikill fjárfestir. Hann var hann eindreginn talsmaður þýska tollabandalagsins (Zollverein), og stuðningi ríkisins lagningu járnbrautarkerfis í Þýskalandi.Hann tapaði öllum auð sínum í misheppnuðum járnbrautarfjárfestingum í Saxlandi, og var að lokum lýstur gjaldþrota. Hann tók eigið líf 1846.
Framlög til hagfræði
breytaSkoðanir List á efnahagsmálum og hagstjórn breyttust eftir komuna til Bandaríkjanna. Hann lét af fyrri stuðningi við viðskiptafrelsi og gerðist stuðningsmaður bandarískra verndartollasinna. Árið 1827 gaf hann út sitt fyrsta verk um hagfræði. Hugmyndir hans einkenndust af þjóðernishyggju og mikilvægi þjóðarinnar sem efnahagslegs geranda, og ríkisins sem verkfæri þjóðarinnar. Þekktasta rit hans er The National System of Political Economy (1841) þar sem hann færði rök fyrir mikilvægi þess að vernda veita iðnaði tollvernd fyrir erlendri samkeppni meðan hann væri að ná þroska. Fríverslun væri aðeins viðegandi efnahagsstefna eftir að iðnaður þjóðarinnar væri orðinn samkeppnishæfur. Hann studdi fríverslun innanlands, og frjálsan útflutning, en taldi að líta ætti á kostnað við tolla á innflutningi sem fjárfestingu í iðnvæðingu og aukinni framleiðini í framtíðinni.[2]
Efnahagsþróun einkenndist þannig af þrepum sem þyrfti að stíga, hvert fyrir sig. Frá óðinvæddu landbúnaðarsamfélagi, sem byggi við fríverslun, til iðnvæðingar með aðstoð verndartolla og loks til iðnaðarsamfélags sem byggi við fríverslun. Hugmyndir hans um þrepaþróun og hlutverk stofnana voru síðan þróaðar áfram af hagfræðingum þýska söguskólans.
Skoðanir List voru undir miklum áhrifum frá Adolphe Thiers, frjálslynds andstæðings fríverslunar í Frakklandi. Alexander Hamilton, og Daniel Raymond, fyrsti bandaríski hagfræðingurinn, höfðu einnig mikil áhrif á skoðanir og hugmyndir List. Báðir höfðu sett fram hugmyndir um verndartolla sem voru forverar kenninga um mikilvægi verndartolla fyrir iðnþróun. Ólíkt klassísku hagfræðingunum á borð við Adam Smith og David Ricardo taldi List að fríverslun ætti ekki alltaf við og að þjóðir högnuðust ekki alltaf af frjálsum viðskiptum.[3] Hann taldi að áhersla Englands á frjálsa verslun væri knúin áfram af eiginhagsmunum ensks iðnaðar, frekar en að hún þjónaði hagsmunum annarra þjóða.
Andstæður hugmyndum Adam Smith
breytaList gagnrýndi klassíska skólann, sér í lagi Smith og hans skoðanir og hugmyndir. Honum þótti skoðanir Smith óþroskaðar þar sem honum fannst þjóðir bara vera samtök einstaklinga í hverju landi. Í samtökunum nytu allir einstaklingar góðs af sanngjarnri verkaskiptingu og frjálsum viðskiptum að hans mati. Þjóðir eru í raun og veru viðfangsefni sem vert er að skoða, List var hlynntur því og að framleiðslukraftar atvinnulífsins væru í það minnsta jafn mikilvægir og áhrifin sem verkaskipting hefur á þjóðir. Atvinnugreinar landsins hagnast þó ekki alltaf á frjálsri verslun, heldur geta þjóðirnar náð árangri með því að fara í stríð eða vernda iðnaði og atvinnugreinar sínar með gjaldtöku tolla eða öðru þvíumlíku. [4]
Þrepakenningin
breytaEins og áður segir er List hvað þekktastur fyrir þrepakenninguna sína um hagþróun. Hann gerði þrepakenningar að vinsælum grunni fyrir komandi þróunarstefnur. Með þrepakenningunni vildi hann meina að allar þjóðir sem hafa góðar auðlindir og góða möguleika á að nýta þær, geti gengið í gegnum fimm stig. Með auðlindum meinar hann allt frá veiðum, á landi eða í sjó, landbúnaðarframleiðslu og alla verslun. [5]
Í þrepakenningunni eru fjögur þrep. Það fyrsta er sveitalíf (enska: pastoral), næsta er landbúnaður, þriðja er blanda af landbúnaði og framleiðslu og síðasta þrepið er landbúnaður ásamt framleiðslu og verslun. List taldi þróun vera framsækna þróun á framleiðsluafli. Það eru ýmiss skilyrði sem þurfa að vera til staðar til þess að þrepakenningin gangi upp. Ríkið ákveður þessi skilyrði með tilliti til laga og stjórnsýslu.[6]
Kenningin segir að á hæsta stigi þróunarinnar ættu allar þjóðir að græða á frjálsri verslun. Þær græða þó ekki allar á sama tíma.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Friedrich List“, Wikipedia (enska), 22. apríl 2022, sótt 4. september 2022
- ↑ „Friedrich List | German-American economist | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 4. september 2022.
- ↑ „Ha-Joon Chang, "Kicking Away the Ladder"“. www.paecon.net. Sótt 4. september 2022.
- ↑ B.Sandelin; H.Trautwein, R.Wundrak (2014). A Short History of Economic Thought. bls. 67.
- ↑ B.Sandelin; H.Trautwein, R.Wundrak (2014). A Short History of Economic Thought. bls. 67.
- ↑ „Friedrich List“, Wikipedia (enska), 22. apríl 2022, sótt 18. september 2022