Forngotlenska eða forneygotneska (forngutniska) var sú mállýska norrænu sem töluð var að fornu á eyjunni Gotland. Hún er það frábrugðin hinum fornausturnorrænu mállýskunum, fornsænsku og forndönsku, að hana ber að telja sem eigið mál. Úr henni er nútíma sænska mállýskan gotlenska komin.

Þessi mynd gefur hugmynd um útbreiðslu fornnorrænu í kringum upphaf 10. aldar. Rauði liturinn sýnir mállýskuna vesturnorrænu; appelsínuguli liturinn sýnir mállýskuna austurnorrænu. Bleiki liturinn sýnir forngotlensku og græni liturinn sýnir aðrar germanskar mállýskur sem norrænir menn gátu skilið og gert sig skiljanlega á við talendur þeirra.

Rótin Gut í nafninu gutniska er sú sama og í Got. íslenska - gotar = sænska - gutar (gotlenningar). Margir málvísindamenn hafa talið að forngotlenska og gotneska (tungumál Gota sem nú eru útdauð) séu nátengd.

Fornnorræna tvíhljóðið au (eins og í auga> augä) hélst í vesturnorrænu, en breytist í austurnorrænu í sérhljóðið ø (øga). Sama gerðist með tvíhljóðið ai í stain (steinn) sem í austurnorrænu varð að e (sten). Þar sem vesturnorræna hafði tvíhljóðið ey (og austurnorrænan ø), hafði forngotlenska oy.

Fornvesturnorræna Forngotlenska Fornausturnorræna

auga [ɑʊɣa]
stein [stɛin]
heyra [høyɾa]

auga [ɑʊɣa]
stain [stain]
hoyra [hɔyɾa]

øgha [ɞːɣɐ]
sten [steːn]
høra [høːɾɐ]

Helsta heimild um forngotlensku er Gotasaga frá 13. öld.

Hér er brot úr Gotasögu:

þissi þieluar hafþi ann sun sum hit hafþi. En hafþa cuna hit huita stierna þaun tu bygþu fyrsti agutlandi fyrstu nat sum þaun saman suafu þa droymdi hennj draumbr. So sum þrir ormar warin slungnir saman j barmj hennar Oc þytti hennj sum þair scriþin yr barmi hennar. þinna draum segþi han firi hasþa bonda sinum hann riaþ dravm þinna so. Alt ir baugum bundit bo land al þitta warþa oc faum þria syni aiga. þaim gaf hann namn allum o fydum. guti al gutland aigha graipr al annar haita Oc gunfiaun þriþi. þair sciptu siþan gutlandi i þria þriþiunga. So at graipr þann elzti laut norþasta þriþiung oc guti miþal þriþiung En gunfiaun þann yngsti laut sunnarsta. siþan af þissum þrim aucaþis fulc j gutlandi som mikit um langan tima at land elptj þaim ai alla fyþa þa lutaþu þair bort af landi huert þriþia þiauþ so at alt sculdu þair aiga oc miþ sir bort hafa sum þair vfan iorþar attu.


Á nútíma íslensku mundi textinn vera á þessa leið:

Son hann Þjálfi átti sem hét Hafði. Og kona Hafða hét Hvítastjarna. þau tvö byggðu fyrst manna á Gotlandi. Fyrstu nótt sem þau þar saman sváfu þá dreymdi hana draum; sá hún þrjá orma vafðir saman í barmi hennar, og þótti henni sem þeir skriða niður barm hennar. Þennan draum sagði hún Hafða bónda sínum. Hann réð draum þann svo: "Allt er baugum bundið og verður allt land þitt búið og munum við þrjá syni eiga." Þeim gaf hann nöfn ófæddum, Goti sem Gotland á að eiga; Greipur sem annar hét; og Gunnfjón sá þriðji. Þeir skiptu síðan Gotlandi í þrjá þriðjunga, þá fékk Greipur sá elsti norður þriðjunginn, og Goti miðju þriðjunginn, en Gunnfjón sá yngsti fékk suður þriðjunginn. Seinna, af þessum þremur jókst eftir langan tíma svo fólk í Gotlandi það mikið að landið gat ekki öllum veitt fæði. Þá létu þeir fara burt af landi þriðja hvern þegn, og allt máttu þau eiga og með sér burt hafa sem ofanjarðar áttu.

Eins og sjá má af þessum samanburði var forngotlenska í flestu mjög lík íslensku ef stafsetning er aðlöguð.