Fordómar
Fordómar er þær skoðanir og viðhorf sem hver og einn kemur með að tilteknu máli áður en viðkomandi hefur kynnt sér málið til hlítar, og þær hugmyndir sem fólk gerir sér um einhvern hlut að óreyndu eða lítt reyndu. Samsetning íslenska orðsins skýrir merkingu þess, „fyrirfram
Fordómahugtakið felur gjarnan í sér neikvæðar skírskotanir, þar er meiningin að neikvætt viðhorf einhvers til manna eða málefna byggi á takmarkaðri þekkingu eða reynslu á því sem dæmt er um og sé þar af leiðandi ónákvæmt eða rangt. Neikvæðir fordómar eru fyrirbæri sem sjá má á öllum sviðum samfélagsins, hjá öllum hópum þess og hjá fólki á öllum aldri, og fela þeir í sér hugsunarferli sem kann að leiða til mismununar, til dæmis á grundvelli kyns, kynþáttar, aldurs, fötlunar eða annars slíks. Jákvæðir fordómar eru jákvæðar hugmyndir sem fólk gefur sér fyrirfram um annað fólk eða fyrirbæri og kunna að reynast jafn rangar (eða réttar) og neikvæðir fordómar. Hugmyndir nútímans um fordóma hvíla á stoðum kenninga upplýsingastefnunnar, svo sem hugmynda prússneska heimspekingsins Immanuels Kant um upplýsingu og um mennska dómgreind.