Kóran (arabíska القرآن‎ al-qur’ān, e. Qur'an eða Koran, fr. Curan) þýðir „upplestur“ eða „framsögn“ og er helgasta rit í íslam. Almenn trú múslima er að Kóraninn sé hið óbrenglaða orð Allah opinberað Múhameð í gegnum erkiengilinn Gabríel. Sem slíkur á Kóraninn að vera hin síðasta opinberun Allah til manna og skal duga til dómdags, borin fram orðrétt eins og Allah mælti. Múslimar trúa því að Kóraninn sé mikilvægast allra rita og ofar lögum manna. Almenn trú múslima er sú að sá Kóran, sem til er í dag, sé óbreytt útgáfa frá því sem Múhameð mælti fram á sínum tíma, orð fyrir orð, punkt fyrir punkt, en Múhameð var sjálfur ólæs og óskrifandi og á að hafa borið fram Kóraninn einungis munnlega.

Kóranskóli (Madrasha) í Egyptalandi. Mikil áhersla er lögð á utanbókalærdóm úr Kóraninum.

Kóraninn er skrifaður á því sem nú kallast trúarleg arabíska sem er töluvert frábrugðin nútíma arabísku, auk þess sem sýnt hefur verið fram á að finna má fjölda tökuorða úr öðrum tungumálum í texta hans.[1] Sá sem talar og les nútíma arabísku getur þó ekki skilið trúarlega arabísku Kóranins án þess að fara í gegnum sérstaks nám fyrst. Múslimum er gjarnan kennt að söngla eða kyrja vers Kóranins utanbókar frá barnsaldri. Kóraninn hefur þó verið þýddur á fjölda tungumála.

Hafiz er sá nefndur sem hefur lært allan Kóraninn utanbókar. Margir múslimar sem annars kunna ekki arabísku læra hann utanbókar að miklu eða öllu leyti. Allir múslimar verða að læra brot úr Kóraninum til að geta farið með bænir.

  1. Arthur Jeffery. The Foreign Vocabulary of the Qur’a. Oriental Institute, Baroda, India, 1938.

Síður í flokknum „Kóraninn“

Þessi flokkur inniheldur 4 síður, af alls 4.