Flasa (fræðiheiti: Pityriasis capitis) er húðsjúkdómur sem á sér stað þegar meira en eðlilegt magn af dauðum húðfrumum flagnar af höfuðleðrinu. Húðin endurnýjar sig reglulega og dauðar húðfrumur flagna af. Þegar um er að ræða flösu losnar meira magn en eðlilegt er og roði og kláði getur verið í hársverðinum. Notkun á ákveðnum hársnyrtivörum getur í flestum tilfellum haldið flösunni niðri.

Flösuþref og psoriasis geta valdið svipuðum einkennum.

Orsakir breyta

Eftir því sem stærsta líffæri mannsins, húðin, vex færast húðfrumur æ lengra út þar til þær deyja og flagna af líkamanum. Hjá flestum eru þessar húðagnir það smáar að þær eru ekki sýnilegar mannsauganu. Ákveðnir þættir geta þó valdið því að þetta ferli er mun hraðara, einkum í höfuðleðrinu. Hjá fólki með flösu getur þetta gerst tvisvar sinnum hraðar en venjulegt er. Þetta veldur því að húðfrumurnar losna af í stærri flekkjum, hvítum eða grálitum. Flasa er talin orsakast af samspili nokkurra þátta, misvel þekktra.

Algengasta ástæða flösu er sveppurinn Malassezia globosa. Þessi sveppur finnst á húð allra, hvort sem þeir þjást af flösu eður ei. Sveppurinn þarf fitu til að lifa af og finnst því á þeim svæðum þar sem fitukirtlar eru og hár vex, einkum höfuðleðri og andliti. Þegar sveppurinn vex of hratt truflar hann eðlilega endurnýjun húðarinnar og kláði og flasa myndast.

Fólki með feitt hár er því hættara við flösu en öðrum, algengur misskilningur er sá að þurrt hár og hársvörður sé viðkvæmari. Hlutfallslega séð eru karlmenn oftar með flösu en konur sem getur bent til þess að karlhormón hafi áhrif.

Aðrar ástæður flösu geta verið ofvirkir fitukirtlar, matarofnæmi, óhófleg svitnun, sáputegundir, sveppasýkingar og stress. Flasa getur verið misvirk eftir árstíðum og loftslagi, kaldir þurrir vetur þykja einkum öflugir í að valda eða auka flösu.

Vannæring getur valdið flösu, einkum zink-skortur.

Meðferð breyta

Væg tilfelli af flösu er hægt að meðhöndla með viðeigandi hármeðferð. Með því að þvo hárið oft er losað um húðfrumurnar og líkur minnka á því að flasan verði sýnileg. Hárvörur sem innihalda sveppaeyðandi eða sýrustillandi efni geta komið betra jafnvægi á hársvörðinn. Hægt er að fá sumar þeirra án lyfseðils í apótekum og verslunum:

Ef einkennin eru mikil skal leita til læknis sem getur gefið út lyfseðla fyrir sterkari vörur ásamt leiðbeiningum.

Heimild breyta

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Dandruff“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 4. nóvember 2005.
  • „Genetic code of dandruff cracked“.