Flankastaðir
Flankastaðir eru bær rétt fyrir norðan Sandgerði. Flankastaðir eru allstór jörð á Suðurnesjamælikvarða og gætu verið landnámsjörð, þó svo að Landnáma tilgreini ekki landnámsmann þar. Bærinn er samt nefndur í Landnámu (þar Flangastaðir) og segir þar frá því er Leiðólfur í Skógum elti Una danska Garðarsson (Svavarssonar) eftir að Uni hafði fíflað Þórunni, dóttur Leiðólfs. Hann náði honum við Flankastaði og börðust þeir þar. Féllu nokkrir menn af Una, en hann fór nauðugur aftur með Leiðólfi. Barn þeirra Una og Þórunnar varð Hróar Tungugoði. Hann var mágur Gunnars á Hlíðarenda og faðir Hámundar halta, er var mikill vígamaður að sögn Landnámu.
Frá Flankastöðum hafa jafnan verið stundaðir útróðrar, eins og frá flestum öðrum jörðum er liggja að sjó. Flankastaðir eru næsti bær norðan Sandgerðis, en þaðan var líka mikið útræði. Útgerðin og góð fiskimið skammt undan í Miðnessjó hafa að líkindum verið aðalundirstaða lífsafkomu bænda á Flankastöðum. Þaðan var Magnús Þórarinsson, sem skrifaði bókina Frá Suðurnesjum og gaf út um miðja tuttugustu öld.
Á Flankastöðum voru lengi haldnir vikivakar um miðsvetrarleytið og var þar dansað og sungið á meðan nokkur gat staðið. Að líkindum hafa veislur þessar oft verið svallsamar og voru prestar þeim mjög andvígir. Að lokum lagði Árni Hallvarðsson, prestur á Hvalsnesi blátt bann við þeim. Nokkrum árum síðar fórst hann á leið að Kirkjuvogi í Höfnum til að syngja þar messu. Höfðu sóknarbörn hans á orði að þar hefndist honum fyrir að afleggja vikivakana á Flankastöðum.