Fjöldamorðin í Tulsa

Kynþáttamorð í Bandaríkjunum árið 1921

36°09′34″N 95°59′11″V / 36.1594°N 95.9864°V / 36.1594; -95.9864

Rjúkandi rústir Greenwood-hverfisins í Tulsa á tíma fjöldamorðanna 1921.
Heimili og verslanir í rústum eftir fjöldamorðin.

Fjöldamorðin í Tulsa voru framin á dögunum 31. maí til 1. júní árið 1921 í hverfinu Greenwood í Tulsa í Oklahoma. Í morðunum réðust hvítir Bandaríkjamenn á heimili svartra samborgara sinna, lögðu hús þeirra og fyrirtæki í rúst og myrtu allt að 300 manns. Fjöldamorðin eru talin eitt versta dæmið um kynþáttaofbeldi í sögu Bandaríkjanna.

Söguágrip

breyta

Við upphaf þriðja áratugar 20. aldar stóð efnahagslíf borgarinnar Tulsa í blóma vegna olíufunda. Kynþáttaaðskilnaðarstefna var við lýði víðs vegar um Bandaríkin og flestir svartir borgarbúar í Tulsa, um tíu þúsund talsins, bjuggu því hver innan um annan í Greenwood-hverfi borgarinar og stunduðu viðskipti sín á milli. Greenwood-hverfið var stundum kallað „svarta Wall Street“ þar sem flestir íbúarnir voru vel stæðir og hverfið þótti nokkurs konar táknmynd um efnahagsuppgang meðal blökkumanna.[1]

Kveikjan að morðhrinunni varð þann 30. maí 1921 þegar svartur táningspiltur að nafni Dick Rowland gekk inn í Drexel-bygginguna til þess að nota salernið þar sem ekki var sérstakt salerni fyrir blökkumenn á vinnustað hans líkt og lög gerðu ráð fyrir. Eftir að hann notaði lyftuna í byggingunni sakaði lyftuvörðurinn, hvít stúlka að nafni Sarah Page, Rowland um áreitni. Fjölmiðlar greindu í kjölfarið frá því að Rowland hefði beitt Page kynferðislegu ofbeldi og lögreglan handtók hann því daginn eftir.[1]

Kvöldið 31. maí safnaðist múgur um 1.500 hvítra borgarbúa í kringum dómshúsið í Tulsa og krafðist þess að fá Rowland framseldan. Lögreglan neitaði að afhenda hann og lét gæta hans á efstu hæð dómshússins, enda var óttast að múgurinn myndi taka Rowland af lífi án dóms og laga. Seinna um kvöldið kom hópur tæplega hundrað svartra borgarbúa á vettvang og bauð lögreglunni hjálp sína við að gæta Rowland en var vísað frá. Um kvöldið kom til vopnaðra átaka milli hópanna tveggja sem leiddi til þess að blökkumennirnir hörfuðu inn í Greenwood-hverfið.[1]

Eftir átökin við dómshúsið fór sú saga á kreik að svartir borgarbúar Tulsa væru að leggja á ráðin um að fá liðsauka frá nágrannaborgum og -bæjum til að gera gagnáhlaup. Í kjölfarið gerðu hvítir borgarbúar árás á Greenwood-hverfið og gengu þar berserksgang. Margir þeirra höfðu verið vopnaðir af yfirvöldum borgarinnar. Morguninn 1. júní höfðu þúsundir hvítra borgarbúa ráðist inn í hverfið, skutu fólk á götum úti, rændu verslanir og kveiktu í húsum. Slökkviliðsmönnum sem komu á vettvang var hótað með byssum og þeim meinað að slökkva eldana.[1] Í átökunum var sprengjum jafnframt varpað á hverfið úr flugvélum og er það talið fyrsta dæmið um loftárás á bandarískri grundu.[2]

Síðdegis þann 1. júní, þegar ofbeldið hafði staðið yfir í rúman sólarhring, setti þjóðvarðlið Oklahoma herlög á Tulsa til að binda enda á óeirðirnar.[2] Þegar þjóðvarðliðið kom á vettvang voru morðin að mestu afstaðin. Seinna sama dag hafði lögreglan tekið ákvörðun um að ákæra ekki Dick Rowland þar sem líkur þóttu til þess að hann hefði aðeins hrasað eða stigið á fót Page. Rowland yfirgaf Tulsa og virðist aldrei hafa snúið aftur.[1]

Enginn var ákærður eða dreginn til ábyrgðar fyrir morðin, ránin og skemmdarverkin sem framin voru í Greenwood-hverfinu og á næstu áratugum var lítið fjallað um fjöldamorðin. Tilraunir voru gerðar til að þagga niður minninguna um atburðinn, meðal annars með förgun dagblaðaumfjöllunar um atburðarásina. Ekki var markvisst hafið að rifja upp hildarleikinn í Tulsa fyrr en á áttunda áratuginum.[1] Í skýrslu sem unnin var á vegum Bandaríkjastjórnar árið 2001 var komist að þeirri niðurstöðu að um 300 manns hafi verið drepnir, hundruð hafi særst, 8.000 til 10.000 hafi misst heimili sín, 35 húsalengjur hafi verið brenndar til grunna, 1.470 heimili hafi verið brennd eða rænd og um 6.000 manns fluttir í fangabúðir. Í skýrslunni var mælt með því að eftirlifandi fórnarlömbum ofbeldisins og afkomendum þeirra yrðu greiddar stríðsskaðabætur en það hefur enn ekki verið gert.[2]

Á hundrað ára afmæli fjöldamorðanna árið 2021 var opnað safn í Tulsa um sögu Greenwood-hverfisins, meðal annars til þess að minnast morðhrinunnar.[3] Joe Biden Bandaríkjaforseti minnstist atburðarins á hundrað ára afmæli hans og áréttaði að markvisst hefi verið reynt að þagga minningu um hann niður.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Sunna Ósk Logadóttir (20. júní 2020). „Trump heldur fyrsta fundinn á slóðum fjöldamorðs“. Kjarninn. Sótt 3. júní 2021.
  2. 2,0 2,1 2,2 Þorvaldur S. Helgason (31. maí 2021). „Öld frá ó­eirð­un­um í Tuls­a: „Ég hef lif­að blóð­bað­ið á hverj­um ein­ast­a degi". Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. mars 2023. Sótt 3. júní 2021.
  3. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (31. maí 2021). „Eftir­lif­endur minnast fjölda­morðsins í Tulsa“. Vísir. Sótt 3. júní 2021.
  4. Róbert Jóhannsson (2. júní 2021). „Biden minntist fjöldamorðanna í Tulsa“. RÚV. Sótt 4. júní 2021.