Þjóðfrelsisfylking sandínista

stjórnmálaflokkur frá Níkaragva, stofnaður 1961
(Endurbeint frá FSLN)

Þjóðfrelsisfylking sandínista (sp. Frente Sandinista de Liberación Nacional; FSLN) er sósíalískur stjórnmálaflokkur í Níkaragva. Meðlimir hans eru kallaðir sandínistar. Heitið er dregið af nafni byltingarmannsins Augusto César Sandino, sem leiddi andspyrnu gegn hernámi Bandaríkjamanna í Níkaragva á fjórða áratugi 20. aldar. Sandínistar réðu yfir Níkaragva frá 1979 til 1990 eftir að hafa leitt byltingu gegn ríkisstjórn einræðisherrans Anastasio Somoza Debayle. Forseti flokksins, Daniel Ortega, hefur verið forseti Níkaragva í annað skipti frá árinu 2007.[1]

Þjóðfrelsisfylking sandínista
Frente Sandinista de Liberación Nacional
Forseti Daniel Ortega
Stofnár 19. júlí 1961; fyrir 63 árum (1961-07-19)
Höfuðstöðvar Managua
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Sandínismi, kristileg vinstristefna, sósíalismi, vinstrilýðhyggja
Áður: Marx-lenínismi
Einkennislitur Rauður  
Sæti á þjóðþinginu
Vefsíða www.lavozdelsandinismo.com

Söguágrip

breyta

Upphaf sandínistahreyfingarinnar má rekja til skæruliðaforingjans Augusto César Sandino, sem fór fyrir andspyrnuhreyfingu Níkaragvamanna gegn hernámi Bandaríkjamanna. Árið 1931 sendu Bandaríkjamenn sérsveitir til Níkaragva til þess að vinna bug á Sandino en urðu að hafa sig á brott tveimur árum síðar án þess að hafa lokið ætlunarverki sínu. Áður en Bandaríkjamenn yfirgáfu landið stofnuðu þeir sérstakt þjóðvarðlið og gerðu skjólstæðing sinn, Anastasio Somoza García, að stjórnanda þess. Þjóðvarðliði Somoza tókst árið 1934 að handtaka Sandino og taka hann að lífi. Somoza varð forseti Níkaragva árið 1936 og hóf þar með ættarveldi Somoza-fjölskyldunnar sem entist í tæplega hálfa öld.[2]

Morðið á Sandino vakti mikla reiði og gerði hann að táknmynd andspyrnuhreyfingarinnar gegn einræðisstjórn Somoza-fjölskyldunnar. Sandínistahreyfingin var lengi einangruð og fáliðuð en eftir að Anastasio Somoza García var myrtur árið 1956 óx hreyfingunni fljótt ásmegin. Marxískir stúdentar fóru smám saman að hópast saman undir merkjum sandínisma og stofna skipulega byltingarhreyfingu. Árið 1961 var Þjóðfrelsisfylking sandínista formlega stofnuð að undirlagi Carlos Fonseca Amador. Við stofnun hópsins var hann undir miklum áhrifum frá byltingunni á Kúbu og lagði áherslu á eflingu byltingarhópa í fjallahéruðum Níkaragva í von um að hann myndi komast í snertingu við bændur landsins.[2]

Fyrstu meiriháttar átökin milli sandínista og ríkisstjórnar Somoza-ættarinnar urðu í orrustu árið 1967. Sandínistar töpuðu orrustunni en viðureignin vakti í fyrsta skipti verulega athygli á þeim og jók stuðning bænda við hreyfinguna. Eftir orrustuna varð hugmyndafræðilegur ágreiningur meðal sandínista um það hvort réttast væri að há langtímabaráttu gegn stjórninni og bíða þess að stéttarvitund gæti þróast meðal landsmanna; stefna að uppbyggingu marx-lenínsks fjöldaflokks; eða fylkja liði með öðrum andspyrnuhreyfingum til þess að flýkka fyrir falli Somoza-veldisins. Allar fylkingarnar voru þó sammála um að stefnt skyldi að þjóðnýtingu eigna Somoza-ættarinnar, þjóðvarðliðið lagt niður og alþýðuher stofnaður í þess stað, og stefnt skyldi að jarðeignarumbótum og skiptingu jarðeigna milli bænda.[2]

Byltingin í Níkaragva

breyta

Árið 1974 réðust sandínistar á Managua, höfuðborg Níkaragva, tóku þar nokkra ráðherra og erindreka sem gísla og neyddu Anastasio Somoza Debayle forseta til að greiða lausnargjald fyrir þá. Sandínistar gerðu síðan árið 1977 árás á herstöð í borginni Masaya en Somoza svaraði árásinni með hefndaraðgerðum gegn bændum landsins. Í takti við harðnandi hernaðarátökin jókst borgaraleg andstaða gegn Somoza, sér í lagi eftir að hann lét myrða blaðaritstjórann Pedro Joaquín Chamorro Cardenal árið 1978 til að þagga niður í gagnrýni á ríkisstjórnina. Í september sama ár hvöttu sandínistar til allsherjaruppreisnar og tókst að ná mörgum borgum landsins á sitt vald. Bandaríkjamenn reyndu að stilla til friðar milli Somoza og stjórnarandstöðunnar en Þjóðlega föðurlandsfylkingin, samtök sandínista og annarra stjórnarandstöðuhópa, hafnaði að endingu samningaviðræðum við stjórnina. Þann 19. júlí árið 1979 hertóku sveitir sandínista höfuðborgina Manuaga og Somoza flúði land.[2]

Eftir byltinguna gegn Somoza stofnuðu sandínistar samsteypustjórn, Þjóðviðreisnarherstjórnina, ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum undir forystu sandínistaleiðtogans Daniels Ortega.[2] Fljótt voru bankar landsins og aðrar eignir Somoza þjóðnýttir og valdastofnanir gömlu stjórnarinnar voru endurskipulagðar.[3] Þótt stjórnin hafi í fyrstu verið samstarf margvíslegra stjórnarandstöðuhópa urðu borgaralegu flokkarnir smám saman afhuga samstarfi við sandínista og árið 1980 sögðu Violeta Chamorro og Alfonso Robelo, fulltrúar borgaralegu stjórnmálaflokkanna, sig úr þjóðstjórninni í mótmælaskyni gegn stjórnarháttum Ortega.[4][5]

Eftir fall Somoza flúðu hundruðir meðlima þjóðvarðliðsins til Hondúras og mynduðu andspyrnusveitir gegn sandínistum sem urðu kallaðar kontraskæruliðar.[6][4] Kontraskæruliðar háðu margra ára baráttu gegn sandínistastjórninni og nutu stuðnings ríkisstjórnar Ronalds Reagan í Bandaríkjunum. Kontraskæruliðum óx nokkur ásmegin á seinni hluta níunda áratugarins vegna versnandi efnahagsástands í Níkaragva í tengslum við verðstýringu og samyrkjuvæðingu sandínistastjórnarinnar.[7]

Árið 1990 féllust sandínistar á að halda frjálsar kosningar í landinu. Þvert á allar væntingar tapaði Ortega kjöri til forseta gegn Violetu Chamorro, sem bauð sig fram sem fulltrúi sameinaðrar stjórnarandstöðu borgaralegu flokkanna. Ortega sætti sig við niðurstöðu kosninganna en sandínistar voru þó áfram stærsti flokkurinn á þingi Níkaragva og voru áfram eitt helsta stjórnmálaafl landsins.

Stjórnarseta frá 2006

breyta

Í forsetakosningum árið 2006 tókst Ortega að ná endurkjöri í forsetaembættið og tók við embætti forseta Níkaragva í byrjun næsta árs.[1] Frá endurkomu sandínista til valda hefur Ortega í auknum mæli verið sakaður um gerræðislegt stjórnarfar, sér í lagi eftir ofbeldisfull viðbrögð stjórnar hans gegn fjöldamótmælum frá árinu 2019.[8]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Daniel Ortega sestur í forsetastól Níkaragúa“. Vísir. 11. janúar 2007. Sótt 17. maí 2020.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „„Patria libre o morir". – Frjálst föðurland eða dauði“. Neisti. 26. ágúst 1979. bls. 12, 11.
  3. „NICARAGUA: Byltingin heldur áfram“. Neisti. 25. mars 1982. bls. 11.
  4. 4,0 4,1 „Nicaragua: Línurnar skýrast“. Þjóðviljinn. 4. maí 1980. bls. 14-15.
  5. Már Guðmundsson (20. ágúst 1984). „Ríkisstjórn verkamanna og bænda“. Neisti. bls. 9-11.
  6. „„Munum þurrka þá út". Dagblaðið Vísir. 2. nóvember 1984. bls. 10.
  7. „Borgarastyrjöldin í Nicaragua harðnar og kontrar vinna á“. Morgunblaðið. 16. júlí 1987. bls. 24.
  8. Kjartan Kjartansson (28. janúar 2019). „Byltingarleiðtogi sagður verða að einræðisherranum sem hann steypti“. Vísir. Sótt 17. maí 2020.