Félagsheimili Kópavogs

Félagsheimili Kópavogs var byggt í Hamraborginni í Kópavogi að Fannborg 2. Það var vígt árið 1959 og rifið árið 2007[1].

Félagsheimili Kópavogs í byggingu.

Sex félagasamtök komu að byggingu félagsheimilisins, það voru Framfarafélagið Kópavogur, Kvenfélag Kópavogs, Ungmennafélagið Breiðablik, Skátafélagið Kópar, Slysavarnarfélag Kópavogs og Leikfélag Kópavogs[2].

Í blaðinu Fálkanum sagði: "Á fyrstu hæðinni eru tveir salir, annar fyrir kvikmynda- og leiksýningar en hinn fyrir veitingar, og þar er einnig eldhús, rúmgott anddyr, snyrtiherbergi, búningsherbergi, o.fl. Mun bærinn annast þar bíósýningar og veitingasölu, þegar félög bæjarins þurfa ekki á salnum að halda. Ágóðinn rennur til ýmissa menningarmála."[3] Kvikmyndasalurinn tók 300 manns og veitingasalurinn 120 manns.

Leikfélag Kópavogs sýndi leikritið Veðmál Mæru Lindar í leikstjórn Gunnars Hansen 22. mars 1959.[4] Margvísleg starfsemi hefur verið í Félagsheimilinu í gegnum tíðina. Þar voru regluleg spilakvöld haldin, Rótarýklúbbur Kópavogs fundaði þar, árið 1964 fluttist Bókasafn Kópavogs inn á aðra hæð í 150 fermetra sal. Þar var lesstofa með 18 sætum, barnadeild með borðum og stólum, viðgerðarstofa bóka, bókageymsla og skrifstofa fyrir bæjarbókavörð. Í félagsheimilinu voru einnig fjölmargir tónleikar haldnir og segir í Lesbók Morgunblaðsins að Kópavogsbær hafi verið „pönkbær” og að Félagsheimilið hafi verið miðstöð íslenskra pönkara til að byrja með og þar léku meðal annars Fræbblarnir, Snillingarnir, Dordingull með Dr. Gunna og fleiri íslensk pönkbönd[5].

Sjálfsbjörg, félag fatlaðra í Reykjavík og nágrenni, hélt sinn fyrsta félagsfund utan Reykjavíkur í félagsheimilinu í nóvember árið 1982, eftir að búið var að koma fyrir hjólastólalyftu við það[6].

Tilvísanir

breyta
  1. „Fé­lags­heim­ili Kópa­vogs lagt niður - Barn síns tíma seg­ir bæj­ar­stjór­inn“. mbl.isn. Sótt 26. mars 2017.
  2. Félagsheimili Kópavogs opnað í gær
  3. Félagsheimili í Kópavogi
  4. Kínverskur gamanleikur sýndur í Kópavogi annað kvöld
  5. Stranglers og íslenska pönkbylgjan
  6. Hjólastólalyfta við Félagsheimilið