Fæðingarheimili Reykjavíkur
Fæðingarheimili Reykjavíkur tók til starfa 18. ágúst árið 1960 og starfaði til ársins 1995. Hulda Jensdóttir ljósmóðir var forstöðukona heimilisins mest allan starfstíma þess. Fæðingarheimilið var þá til húsa á Eiríksgötu 37 í Reykjavík, á horni Þorfinnsgötu og Eiríksgötu þar sem augndeild Landspítalans er nú. Eftir nokkurt hlé var Fæðingarheimili Reykjavíkur opnað á ný árið 2021. [1]
Saga Fæðingarheimilsins
breytaÍ upphafi sjötta áratugarins var orðið ljóst að fæðingardeild Landspítalans í Reykjavík bjó við mikil þrengsli og aðstæður á deildinni þess vegna erfiðar. Á þessum árum kom Reykjavíkurborg að rekstri fæðingardeildarinnar og lagði henni til fjármuni ásamt ríkinu.[2] Óformlegar viðræður fóru af stað á milli ríkis og borgar um mögulega stækkun fæðingardeildarinnar eða byggingu nýrrar deildar og drógust þær á langinn án þess að niðurstaða fengist. Bandalag kvenna í Reykjavík tók málið upp á sína arma og skipaði nefnd sem vann að framgangi þess. Niðurstaða hennar varð sú að fara þess á leit við Reykjavíkurborg að hún hefði forgöngu um að opnað yrði fæðingarheimili í húsnæði i í eigu borgarinnar að Eiríksgötu í Reykjavík.[3]
Borgin tók vel í málaleitan Bandalags kvenna og þann 21. nóvember 1957 lagði Gunnar Thoroddsen þáverandi borgarstjóri fram tillögu á bæjarstjórnarfundi um stofnun fæðingarheimils sem yrði til húsa í íbúðarhúsum í eigu borgarinnar á horni Þorfinnsgötu og Eiríksgötu. Í upphafi var gert ráð fyrir 25 rúmum á Fæðingarheimilinu og áætlað að fyrstu árin yrðu þar um 800 fæðingar.[4]
Hulda Jensdóttir ljósmóðir var ráðin forstöðukona Fæðingarheimilisins og tók það til starfa 18. ágúst 1960 og fæddust fyrstu börnin þar degi síðar eða 19. ágúst.[5]
Lagt var upp með að Fæðingarheimilið yrði einkum ætlað konum sem gengið höfðu í gegnum áfallalausa meðgöngu og „við það miðað að taka á móti eðlilegum fæðingum.“ var haft eftir Huldu Jensdóttur í blaðaviðtali skömmu eftir opnun heimilisins.[6]
Fæðingarheimilið var rekið sem sjálfstæð eining innan Reykjavíkurborgar allt til ársins 1989 en þá varð heimilið ein af deildum Borgarspítalans.[7] Eins og áður sagði var í upphafi áætlað að árlega yrðu um 800 fæðingar á Fæðingarheimilinu. Þegar mest lét fæddust að meðaltali um 1100-1300 börn árlega á heimilinu.[8]
Þann 6. maí 2021 samþykkti borgarráð að gefa eftir heiti Fæðingarheimilis Reykjavíkur og var það afskráð úr fyrirtækjaskrá. [9] Við heitinu tóku ljósmæðurnar Emma Marie Swift og Embla Ýr Guðmundsdóttir og hófu starfsemi Fæðingarheimilis Reykjavíkur á ný um mitt ár 2021. [10]
Ný viðhorf
breytaTilkoma Fæðingarheimilisins átti stóran þátt í að innleiða ný viðhorf til fæðinga og þjónustu við sængurkonur hér á landi. Einkum var það vegna áhrifa forstöðukonunnar Huldu Jensdóttur en hún var ötul við að að kynna nýjar hugmyndir með áherslu á að fæðing væri náttúrulegur atburður sem ætti að eiga sér stað við sem þægilegastar og heimilislegar aðstæður. Á Fæðingarheimilinu fengu feður að vera viðstaddir fæðingar barna sinna sem þá þótti mikið nýmæli, systkini nýburanna voru velkomin í heimsókn á Fæðingarheimilið og boðið var upp á námskeið fyrir verðandi mæður og þeim m.a. kennd öndun og slökun. Konum var einnig boðið að fá börn sín í fangið um leið og þau fæddust, en áður tíðkaðist að þau væri þvegin og klædd áður en þau voru lögð í fang móður sinnar.[11]
Deilur um Fæðingarheimilið
breytaOft voru skiptar skoðanir um ágæti Fæðingarheimilisins og þeirra aðferða sem þar var beitt. Ýmsir töldu að öryggi kvenna og barna þeirra væri ekki nægilega tryggt og í viðtali við Guðjón Magnússon aðstoðarlandlækni í tímaritinu Veru árið 1988 sagði hann að Fæðingarheimilið væri mjög umdeild í heilbrigðiskerfinu út frá öryggissjónarmiði og meðal annars vegna þess að ekki væri þar aðstaða til að gera keisaraskurð, auk þess sem á heimilinu ríkti tregða við að nota nútímatækni til dæmis til að fylgjast með hjartslætti fóstursins.[12]
Endalok Fæðingarheimilisins 1995
breytaUm miðjan áttunda áratuginn fór fæðingum að fækka á Fæðingarheimilinu og konur fóru í auknum mæli að fæða börn sín á fæðingardeild Landspítalns. Um svipað leyti hafði borgin hug á því að draga sig út úr rekstri heimilisins og árið 1980 stóð til að hún seldi ríkinu heimilið. Fjöldi kvenna mótmælti áformum borgarinnar og söfnuðu þær undirskriftum gegn sölunni. Ekkert varð af sölunni en starfsemi heimilins dróst hins vegar saman eftir því sem á leið og að lokum var Fæðingarheimilið lagt niður árið 1995. Á starfstíma þess fæddust þar um 22 þúsund börn.[11][8]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Fæðingarheimili Reykjavíkur“. Fæðingarheimili Reykjavíkur (bandarísk enska). Sótt 26. ágúst 2021.
- ↑ „Eftir nær 4ra ára athugun fundin lausn á vandanum vegna þrengslanna á fæðingardeildinni“, Alþýðublaðið, 22. nóvember 1957 (skoðað 29. janúar 2020)
- ↑ „Stofnað verði fæðingarheimili í Reykjavík“, Morgunblaðið, 22. nóvember 1957 (skoðað 31. janúar 2020)
- ↑ „Nýja fæðingarheimilið að verða tilbúið“, Morgunblaðið, 14. júlí 1960 (skoðað 29. janúar 2020)
- ↑ „Fæðingarheimili Reykjavíkurbæjar er tekið til starfa“, Þjóðviljinn, 20. ágúst 1960 (skoðað 31. janúar 2020)
- ↑ „Drengur eða stúlka?“, Morgunblaðið, 20. október 1960 (skoðað 31. janúar 2020)
- ↑ Ólafur Jónsson, „Sagan um Borgarspítalann“, Læknablaðið, 11. tbl. 2014 (skoðað 1. febrúar 2020)
- ↑ 8,0 8,1 „Hvað verður um Fæðingarheimilið?“, Vera, 3. tbl. 7. árg. 1988 (skoðað 1. febrúar 2020)
- ↑ „Fundur nr. 5625“. Reykjavíkurborg. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. ágúst 2021. Sótt 26. ágúst 2021.
- ↑ „Fæðingarheimili Reykjavíkur“. Fæðingarheimili Reykjavíkur (bandarísk enska). Sótt 26. ágúst 2021.
- ↑ 11,0 11,1 Kolbrún Bergþórsdóttir, „Er ekki hætt þótt ég sé hætt“, Blaðið, 18. ágúst 2007 (skoðað 31. janúar 2020)
- ↑ „Skiptar skoðanir um fæðingarheimilið“, Vera, 4. tbl. 7. árg. 1988 (skoðað 31. janúar 2020)