Eldhúskappræðurnar

Eldhúskappræðurnar voru nokkur óundirbúin orðaskipti (gegnum túlka) milli Richard Nixon varaforseta Bandaríkjanna, og Níkíta Khrústsjov aðalritara Sovéska kommúnistaflokksins við opnun Bandarísku sýningarinnar í Moskvu 24. júlí 1959. Á sýningunni var meðal annars hægt að skoða „bandarískt nútímaheimili“ búið öllum nýjustu heimilistækjum sem Nixon hélt fram í opnunarræðu að allir Bandaríkjamenn hefðu efni á að eignast. Khrústsjov svaraði að í Sovétríkjunum væri lögð áhersla á hluti sem skiptu máli fremur en munað. Orðaskiptin fóru fram á ýmsum stöðum á sýningunni en mest þó í sýningareldhúsinu. Báðir reyndu að rökstyðja kosti síns ríkis og urðu á endanum sammála um þörf fyrir opnari samskipti milli risaveldanna. Þetta var fyrsti fundur háttsettra ráðamanna ríkjanna frá leiðtogafundinum í Genf 1955.

Nixon (t.v.) og Khrústsjov (t.h.) í Kreml 1959 eftir eldhúskappræðurnar.

Kappræðurnar voru sýndar í sjónvarpi bæði í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum. Niðurstaða þeirra var að vinsældir Nixons jukust heima fyrir. Þær áttu þannig sinn þátt í því að hann var valinn forsetaefni Repúblikanaflokksins árið eftir.

Tenglar

breyta