El Dorado (kólumbíska úrvalsdeildin)

El Dorado er skammvinnt tímabil í sögu kólumbísku knattspyrnunnar (1949-54) þegar félagslið í landinu sönkuðu að sér kunnum knattspyrnumönnum víðs vegar að úr heiminum með því að greiða þeim það sem talin voru ofurlaun á þess tíma mælikvarða. Deildin var starfrækt í óþökk FIFA og braut gegn ýmsum reglum alþjóðaknattspyrnunnar. El Dorado-skeiðinu lauk með samkomulagi við Alþjóðaknattspyrnusambandið árið 1954 og fóru þá flestar knattspyrnustjörnurnar aftur til síns heima, en í hugum margra Kólumbíumanna var hér um að ræða gullöld þeirra á fótboltasviðinu.

Kólumbíumenn voru seinni að taka við sér á knattspyrnusviðinu en flestar aðrar Suður-Ameríkuþjóðir. Knattspyrnusamband var ekki stofnað fyrr en árið 1924, fékk ekki aðild að FIFA og álfusambandinu CONMEBOL fyrr en árið 1936 og tók fyrst þátt í Copa America árið 1945.

Atvinnumennska var tekin upp í kólumbísku knattspyrnunni árið 1948 og deildarkeppni sett á laggirnar undir stjórn DIMAYOR (División Mayor del Fútbol Profesional Colombiano). Deilur innan knattspyrnuhreyfingarinnar urðu til þess að DIMAYOR sagði skilið við Kólumbíska knattspyrnusambandið, með þeim afleiðingum að FIFA bannaði bæði landsliðinu og kólumbískum félagsliðum að taka þátt í alþjóðlegum keppnum.

Á sama tíma stóð yfir verkfall knattspyrnumanna í Argentínu, sem olli því að margir sterkustu leikmenn landsins voru farnir að horfa út fyrir landsteinana. Þar sem kólumbísk félög heyrðu ekki undir reglur FIFA gátu þau fengið til liðs við sig leikmenn án þess að greiða fyrir þá. Eigandi félagsins Millonarios F.C. frá Bogotá reið á vaðið og tryggði sér krafta nokkurra argentínskra leikmanna.

Eftir að Adolfo Pedernera ein helsta stjarna River Plate gekk til liðs við Millonarios í ársbyrjun 1949 fór skriðan af stað og flest kólumbísku liðin sönkuðu að sér leikmönnum, ekki bara frá Argentínu heldur hvaðanæva úr álfunni og frá Evrópu.

Frægasti leikmaður kólumbísku deildarinnar á þessum árum var vafalítið Alfredo Di Stéfano sem lék með Millonarios, sigursælasta liði landsins. Millonarios var af ýmsum talið best skipaða knattspyrnulið í heimi og vann m.a. frægan sigur á Real Madrid á Santiago Bernabeu.

Leikmannastraumurinn til Kólumbíu olli miklu uppnámi meðal stjórnenda liða um víða veröld sem óttuðust að missa stjörnur sínar frá sér bótalaust. Á árinu 1950 náðust samningar milli FIFA og stjórnenda kólumbísku deildarinnar þess efnis að keppnisbanninu á kólumbísku liðin yrði aflétt gegn því að erlendu leikmennirnir yrðu sendir til síns heima ekki síðar en 1954. Í kjölfarið dró mjög úr styrk deildarkeppninnar sem hefur staðið öflugustu deildum álfunnar nokkuð að baki.

Heimildir

breyta