E. E. Evans-Pritchard

Edward Evan Evans-Pritchard (21. september 1902 - 11. september 1973) var breskur mannfræðingur og átti sinn þátt í því að þróa félagsmannfræði í Bretlandi. Hann var prófessor við Oxfordháskóla og kenndi þar mannfræði á árunum 1946-1970.

Evans-Pritchard fæddist í Sussex á Englandi og nam við London School of Economics. Þar komst hann í kynni við hugmyndir mannfræðingsins Bronisław Malinowski sem m.a. var talsmaður þess sjónarhorns að rökhyggja byggi að baki því hvernig samfélög manna væru uppbyggð.

Evans-Pritchard hóf sína fyrstu vettvangsrannsókn árið 1926 meðal Azande manna. Með þeirri rannsókn aflaði hann sér hvoru tveggja doktorsgráðu (1927) og efniviðar í bók sína Witchcraft, Oracles and Magic Among the Azande sem kom út árið 1937. Galdrar Azande manna voru eitt hans helsta hugðarefni og færði hann rök fyrir því að galdrar væru byggðir á rökhugsun og væru þar með rökrétt atferli.

Hann gerði síðar vettvangsrannsókn meðal Nuer manna í Afríku og gaf út bókina The Nuer árið 1940 sem telja má til þekktustu verka mannfræðinga 20. aldar. Í The Nuer kom fram áhugi hans á pólitísku skipulagi, uppbyggingu og hugsunarhætti fólksins sem hann rannsakaði.

Meðal samstarfsmanna Evans-Pritchard við Oxfordháskóla voru A. R. Radcliffe-Brown og Meyer Fortes, einnig mannfræðingar. Saman gáfu þeir út bókina African Political Systems þar sem þeir gerðu tilraun til að flokka afrísk stjórnkerfi í tvo hópa: með eða án miðstýrðs stjórnkerfis. Evans-Pritchard og Fortes höfðu báðir gert vettvangsrannsókn meðal hópa með liðskipt ættarkerfi og höfðu áhuga á því hvernig stjórnmál gengu fyrir sig í samfélögum án miðstýrðs stjórnkerfis.


Evans-Pritchard var sleginn til riddara árið 1971.


Heimildir

breyta
  • Moore, Sally Falk (1994). Anthropology and Africa: Changing Perspectives on a Changing Scene. University Press of Virginia. ISBN 0-8139-1505-8.