Dyrehavsbakken, í daglegu tali Bakken er skemmtigarður í Danmörku, norðan við Kaupmannahöfn, og er elsti skemmtigarður í heimi sem enn er starfandi. Gestir garðsins eru um 2,5 milljónir árlega.

Úr Dyrehavsbanen. Rutchebanen til vinstri.

Upphafið má rekja til þess að árið 1583 var komið á fót markaði við hinn konunglega dýragarð og varð þar brátt vinsæll áfangastaður Kaupmannahafnarbúa. Á sumrin slógu trúðar og leikarar upp tjöldum við markaðinn og skemmtu fólki. Vinsældir Bakken jukust smátt og smátt og á seinni hluta 19. aldar fóru hús að koma í stað tjaldanna. Á Bakken er nú fjöldi leiktækja, þar á meðal fimm rússibanar. Sá þekktasti heitir einfaldlega Rutchebanen og var tekinn í notkun árið 1932.

Einkennismerki Bakken er trúðurinn Pierrot og hefur hann komið fram í garðinum frá árinu 1800.