Dygðaskreyting
Dygðaskreyting eða dyggðaskreyting (á ensku: virtue signaling) kallast það þegar einhver lætur siðferðisskoðanir sínar og siðgæði í ljós á áberandi hátt. Hugtakið nær yfir öll þau hegðunarmynstur og tjáningu sem einstaklingur gæti notað til að sýna eigin mannkosti fyrir öðrum og voru erlendar hliðstæður þessa hugtaks áður helst notaðar til að lýsa hegðun trúarfólks sem þarf að sýna fyrir öðrum hversu trúrækið það er, því það eykur stöðu þess innan félagshópsins.[1]
Boð eru mikilvæg í tjáningu milli allra dýra, það að páfugl geti viðhaldið íburðamiklu stéli sínu gefur til kynna að hann sé hraustur og sé tilvalinn maki. Það sama á við í annars konar boðmerkjum, fjármálabanki sem hefur höfuðstöðvar sínar í tilkomumikilli byggingu gefur til kynna að bankinn sé traustverðugur.[2]
Þar sem manneskjan þarf stöðugt að sýna fram á eigin siðgæði til að viðhalda eða auka sína félagslega stöðu getur hugtakið dygðaskreyting átt við margs konar hegðun og boðmerki manna. Í kringum árið 2014 fór að bera á hugtakinu í daglegu tali, sér í lagi á samfélagsmiðlum. Orðið er þá notað í neikvæðri merkingu og notað til að gera lítið úr háttalagi fólks, meiningin er þá sú að háttalagið sé hrein sýndarmennska sem þjóni einungis þeim tilgangi að sýna félagshópi manns hversu dyggur maður sé og hversu gott siðgæði maður sé með. Skoðanirnar séu ætíð eitthvað sem hugnist félagshópnum manns og því sé engin félagsleg áhætta fólgin í skrípaleiknum.[3]
Hugtakið var meðal annars notað um klaka-áskorunina á Facebook (ice bucket challange) þar sem fólk gekk ansi langt til að sýna stuðning sinn við samtök taugahrörnunarsjúkdóms, það hefur verið notað um hvers kyns sýndarmennsku sem fólk sýnir eftir harmleiki með því t.d. að skipta um mynd af sér á samfélagsmiðlum, um brjóstakrabbameinsnælur, um stjórnamálamenn sem láta bera á sínum hugmyndafræðilega „réttu“ skoðunum, um kvenréttindasinna sem sýna dyggð sína á netinu en sitja annars aðgerðalausir, og um ýmis fyrirtæki sem notfæra sér þær skoðanir sem njóta hylli hverju sinni í auglýsingum sínum.
Tilvísanir
breyta- ↑ Bulbulia, Joseph; Schjoedt, Uffe (2010). "Religious Culture and Cooperative Prediction under Risk: Perspectives from Social Neuroscience". Religion, Economy, and Cooperation. bls. 37–39.
- ↑ Bowman, S. (2016) Stop Saying 'Virtue Signalling. Adam Smith Institute
- ↑ Hobbs, Julia (17. febrúar 2017). „What Is Virtue Signalling? And Should We Feel Bad About Doing It?“. Vogue (UK edition). Sótt 5. október 2017.