Holdýr

(Endurbeint frá Cnidaria)

Holdýr (fræðiheiti: Cnidaria) eru fylking tiltölulega einfaldra dýra sem finnast aðallega í sjó. Fylkingin telur um 11.000 tegundir, þar á meðal sæfífla, marglyttur og kóralla. Holdýr eru algengir steingervingar og komu fyrst fram á sjónarsviðið á forkambríumtíma.

Holdýr
Sænetlur (Chrysaora quinquecirrha)
Sænetlur (Chrysaora quinquecirrha)
Vísindaleg flokkun
Veldi: Heilkjörnungar (Eukaryota)
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Cnidaria
Hatschek, 1888
Flokkar

Einkenni á holdýrum er að þau eru með aðeins eitt meltingarop þar sem matur fer inn og úrgangur út. Meltingarvegurinn er líka lífhol dýrsins og er því kallað meltingarhol (gastrodermis). Umhverfis meltingaropið eru griparmar og á þeim stingfrumur (brennifrumur) sem gefa frá sér eitur til að drepa bráðina og til að verja holdýrin fyrir óvinum. Líkamsveggur holdýra er úr þremur lögum:

  • ytri útþekju (epidermis),
  • innri útþekju (gastrodermis) sem þekur meltingarholið og
  • utanfrumulagi (mesoglea) sem er á milli hinna tveggja laganna og getur verið þunnt frumulaust grunnlag eða þykkur trefjakenndur eða hlaupkenndur bandvefur.

Holdýr eru geislótt samhverf í laginu. Þau skiptast í holsepa (með opið upp) og hveljur (með opið niður). Holsepar eru sívalir og er annar endi þeirra botnfastur en armar og munnhol snúa upp. Í holsepum er utanfrumulagið þunnt lag. Hveljur fljóta um sjóinn og snýr munnur þeirra niður og armar hanga niður. Þær minna á regnhlífar. Hjá hveljum er utanfrumulagið mjög þykkt. Sum holdýr fara í gegnum báðar líkamsgerðir á lífsferli sínum en sum eru eingöngu hveljur eða holsepar allan lífsferilinn. Sambýli hefur þróast hjá sumum holsepum.

Æxlun holdýra er tvenns konar, kynæxlun og hins vegar kynlaus æxlun, knappskot þar sem nýr einstaklingur vex út úr þeim eldri.


  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.