Buergbrennen er eldhátíð sem haldin er á fyrsta sunnudegi í föstu í Lúxemborg og nærliggjandi svæðum. Í Þýskalandi er hátíðin kölluð Burgbrennen en í Frakklandi og Belgíu er hún þekkt undir nafninu dimanche des Brandons. Hátíðin er byggð á gömlum hefðum og bálið markar skil veturs og komandi vors. Orðið „burg“ er komið frá latneska orðinu „burere“ sem merkir að brenna.

Buergbrennen í Junglister, Lúxemborg

Fyrr á tímum var eldhátíðin haldin í tengslum við jafndægur að vori þann 21. mars. Upphaflega var eldhátíðin þannig að kveikt var bál úr trédrumbum og heyi en eftir því sem tímar liðu fram þá varð í miðju bálsins einn trjástofn sem greindist og síðar var krosstrjám bætt efst á köstinn svo hann líktist krossi.

Buergbrennen var einu sinni eingöngu opin karlmönnum í þorpunum og nýkvæntir menn voru í sérstöku hlutverki þannig að sá sem hafði seinast kvænst kveikti í bálkestinum. Hinir nýgiftu áttu einnig að safna viði á bálið eða borga öðrum fyrir það. Þegar bálið var slokknað buðu þeir til skemmtunar annaðhvort á heimilum sínum eða í þorpskránum.

Í dag eru það vanalega æskulýðsfélög sem sjá um Buergbrennen. Þau safna viði sem oft er gömul jólatré og hlaða bálkesti sem vanalega er efst á nálægri hæð eða hól. Oft er kross sem rís hátt upp í loft í miðju eldsins. Vanalega er til staðar bás með mat og drykk og slökkviliðsmenn eru viðstaddir til að tryggja að eldurinn breiðist ekki út.

Heimild breyta