65°35′30″N 21°22′16″V / 65.59167°N 21.37111°V / 65.59167; -21.37111

Broddaneshreppur (1992 - 2006)

Broddaneshreppur var sveitarfélag á Ströndum sem nú er hluti Strandabyggðar. Það náði yfir Kollafjörð og Bitrufjörð á Ströndum, frá Stikuhálsi milli Hrútafjarðar og Bitru og að Forvaða við norðanverðan Kollafjörð. Hreppurinn samsvarar hinum forna Broddaneshreppi áður en honum var skipt upp í Fellshrepp og Óspakseyrarhrepp á síðari hluta 19. aldar. Broddaneshreppur varð svo aftur til við endursameiningu þeirra 1. janúar 1992.

Í Broddaneshreppi voru rétt rúmlega 50 íbúar í árslok 2005 og hafði fækkað mjög á síðustu árum. Bændur í hreppnum lifa á sauðfjárrækt. Í hreppnum var Kaupfélag Bitrufjarðar á Óspakseyri sem hætti starfsemi árið 2004. Einnig grunnskóli á Broddanesi, sem var lokað haustið 2004, en hann hafði þá starfað frá ársbyrjun 1978. Börnin í Kollafirði sækja nú skóla til Hólmavíkur, en börn í Bitrufirði sækja skóla að Borðeyri í Hrútafirði.

Sameiningartillögur

breyta

Í kosningu um sameiningu sveitarfélaga í október 2005 var tillaga stjórnvalda um sameiningu allra sveitarfélaga á Ströndum felld í öllum sveitarfélögum á Ströndum, nema Broddaneshreppi. Viðræður um sameiningu Broddaneshrepps og Hólmavíkurhrepps hófust síðan í nóvember sama ár. Var sameiningin samþykkt í kosningu 8. apríl 2006 og tók gildi 10. júní, að afloknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2006. Samhliða kosningunum var kosið um þrjár tillögur að nafni á nýja sveitarfélagið - Strandahrepp, Strandabyggð og Sveitarfélagið Strandir. Í kosningunni varð nafnið Strandabyggð ofan á með 95 atkvæði, en auðir og ógildir seðlar voru 117.