Breski Indlandsherinn

Breski Indlandsherinn var her Indlands frá 1895 þar til landið fékk sjálfstæði 1947. Fyrir stofnun var orðið notað óformlega þegar talað var um Forsetaherina þrjá á Indlandi, Bengalherinn, Madrasherinn og Bombeyherinn. Frá 1895 til 1902 var Indlandsherinn her ríkisstjórnar Indlands. Kitchener lávarður breytti skipulagi hersins eftir 1902 og felldi Forsetaherina inn í aðalherinn. Eftir umbætur Kitcheners var herinn settur saman úr indverska hernum sem í voru Indverjar og Bretar búsettir á Indlandi, og breska hernum á Indlandi sem voru breskar herdeildir staðsettar tímabundið á Indlandi. Saman mynduðu þessir tveir herir Indlandsherinn. Yfirmaður heraflans á Indlandi var titill sem var notaður frá tímum félagsstjórnarinnar 1748. Hann heyrði undir landstjóra Indlands (síðar varakonungs Indlands). Stöður í indverska hernum voru minna metnar en sambærilegar stöður í breska hernum en voru aftur á móti betur launaðar svo þær voru eftirsóttar. Ætlast var til þess að breskir foringjar í indverska hernum kynnu skil á tungumálum undirmanna sinna sem flestir voru frá hindímælandi svæðum.

Indverskir hermenn í Singapúr 1941.

Breski Indlandsherinn barðist bæði í Fyrri og Síðari heimsstyrjöld. Árið 1919 tók hann þátt í Þriðju afgönsku styrjöldinni. Eftir Fyrri heimsstyrjöld fengu Indverjar aukna framgöngu innan hersins. Árið 1932 var Indverski herskólinn stofnaður í Dehradun en áður hlutu foringjar þjálfun í Konunglega herskólanum í Sandhurst í Bretlandi.

Eftir skiptingu Indlands 1947 skiptist meginhluti hersins ásamt hergögnum milli nýju ríkjanna Pakistan og Indlands. Þessir tveir herir mættust skömmu síðar í Fyrsta Kasmírstríðinu. Breskar herdeildir og gurkaherdeildir þar sem hermennirnir voru flestir frá Nepal voru áfram hlutar af breska hernum og voru fluttar frá Indlandi til annarra staða innan Breska heimsveldisins. Síðasta breska herdeildin sem hvarf frá Indlandi var Somerset-léttsveitin 28. febrúar 1948.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.