Brús
Brús er gamalgróið spil sem spilað er með hefðbundnum spilum. Spilið hefur lengi verið vinsælt í Svarfaðardal og nágrannabyggðum hans en er minna þekkt annars staðar á landinu. Þetta er fjögurra manna spil og spila tveir og tveir saman og sitja andspænis hvor öðrum eins og í mörgum öðrum spilum. Brús er óvenjulegt spil að því leyti að ekki eru öll spilin í spilastokknum notuð og spilagildi eru önnur en venjulega gerist. Úr spilastokknum eru teknir tvistar, þristar, fjarkar og fimmur, eftir verða 36 spil. Hæstu spilin eru laufa gosi, hjarta kóngur og spaða átta (sem kölluð er brúnka), síðan koma önnur verðminni spil. Spilareglurnar eru um margt sérkennilegar og reikningshaldið líka sem byggir á svokölluðum kambi.
Heimsmeistarmótið í Brús
breytaHeimsmeistarmót í Brús er haldið árlega. Keppnin er liður í menningarhátíðinni Svarfdælskum marsi sem haldin er á Dalvík og í Svarfaðardal árlega, síðustu helgina í mars. Keppt er um gullkambinn svokallaða sem er veglegur verðlaunagripur. Heimsmeistarar hverju sinni fá gullkambinn til varðveislu fram að næsta móti. Gullkamburinn er hannaður og smíðaður af Jóhannesi Hafsteinssyni og er fyrirmyndin sótt til þess kambs sem settur er upp fyrir reikningshaldið í Brús.
Saga spilsins
breytaTalið er að brús hafi borist hingað frá Danmörku á 19. öld. Ólafur Davíðsson þjóðsagnasafnari skrifaði um skemmtanir Íslendinga og gaf út á árunum 1888–1892. Þar getur hann um þetta spil og því er aftur lýst í ritverki þeirra Ólafs og Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara sem fékk heitið Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur.