Blátt fólk kemur fyrir í þjóðsögum og sögnum úr ýmsum heimshlutum en í einstaka tilvikum eru þessar sögur sannar og er þar oftast um að ræða fólk sem er með sjaldgæfan víkjandi erfðasjúkdóm, svonefndan arfgengan methemóglómíndreyra (methemoglobinemia), sem gerir að verkum að hörundið verður bláleitt.

Til að sjúkdómurinn komi fram þarf fólk að erfa þau gen sem sjúkdómnum valda frá báðum foreldrum. Líkur á að þetta gerist aukast til muna við skyldleikaræktun, því séu foreldrarnir skyldir hafa þeir að jafnaði fleiri gen sameiginleg. Þekktasta dæmið er Fugate-ættin, sem bjó á einangruðu svæði uppi á fjöllum Kentucky í Bandaríkjunum. Ættfeður þeirra báru genið og svo var einnig um aðra ætt í nágrenninu. Þegar einstaklingar úr þessum fjölskyldum eignuðust börn á fyrri hluta 19. aldar saman kom sjúkdómurinn fram. Kostir í makavali voru afar takmarkaðir og því var mikið um að náskyldir einstaklingar eignuðust saman börn, sem jók svo aftur líkurnar á sjúkdómnum. Nú eru til lyf sem halda kvillanum algjörlega í skefjum svo að fólk með methemóglómindreyra heldur eðlilegum húðlit.

Blámaður merkti líka sama og blökkumaður á íslensku og í fornnorrænu máli og Afríka var kölluð Blámannaland eða Bláland, enda eru orðin blár og blakkur komin af sömu rót.

Heimild breyta