Bhut jolokia
Bhut jolokia, einnig kallaður draugapipar, U-morok, rauð naga, naga jolokia og draugajolokia, er tegundablandað yrki eldpipars frá Arunachal Pradesh, Assam, Nagalandi og Manipur í norðausturhluta Indlands. Hann er blendingur Capsicum chinense og Capsicum frutescens og náskyldur nagapipar frá Bangladess.
Árið 2007 vottaði Heimsmetabók Guinness að Bhut jolokia væri sterkasti eldpipar heims, 400 sinnum sterkari en tabaskósósa. Piparinn var metinn á 1 milljón Scoville-stiga. Árið 2011 mældist Infinity-pipar hærra á kvarðanum og síðan Naga Viper, Trínidad Moruga-sporðdrekinn og að síðustu Carolina Reaper-afbrigðið árið 2013.