Manipur
Manipur (áður Kanglapak) er fylki í norðausturhluta Indlands. Höfuðborg fylkisins er Imphal. Manipur á landamæri að Búrma í austri, Nagalandi í norðri, Mizoram í suðri og Assam í vestri.
Íbúar Manipur tala nokkur ólík tíbesk-búrmísk tungumál en það stærsta er meitei. Í fylkinu eru stunduð mörg trúarbrögð og aðeins 46% íbúa eru hindúatrúar og 34% kristnir. Sanamahismi á upptök sín á svæðinu en á 18. öld tóku íbúar upp visnúisma sem er grein af hindúatrú. Landið var lengst af undir yfirráðum fursta sem margir ríktu með fulltingi konunga Búrma, Ahomríkisins eða Breta en vörðust jafnframt tilburðum þessara ríkja til að tryggja sér yfirráð yfir svæðinu.