Beikon

(Endurbeint frá Bacon)

Beikon er saltað svínakjöt, oftast einnig reykt. Kjötið er þurrsaltað, sprautusaltað eða lagt í saltpækil sem inniheldur nítrít og stundum einnig svolítinn sykur eða síróp. Síðan er það yfirleitt reykt, en einnig má þurrka það í nokkrar vikur eða mánuði í köldu lofti, eða sjóða. Beikon verður alltaf að að elda áður en það er snætt.

Beikon úr slögum
Beikon úr hrygg (lúxusbeikon)

Beikon er unnið úr mismunandi hlutum svínakjöts, ýmist slögum, síðubitum eða hrygg. Beikon úr slögum, eins og algengast er í íslenskum verslunum, er feitt (oft 50% eða meira) og í því skiptast á fitu- og kjötrendur. Það er í Englandi oftast kallað „amerískt beikon“. Síðubitar eru kjötmeiri og fituminni og beikon gert úr hrygg er fitulítið og oft kallað „lúxusbeikon“ eða „kanadískt beikon“

Beikon er yfirleitt skorið í þunnar ræmur og steikt á pönnu og borið fram til dæmis með steiktum eða hrærðum eggjum, bökuðum baunum, pönnukökum, ristuðu brauði og ýmsu grænmeti. Það er einnig notað í samlokur, á hamborgara og margt annað, eða skorið í litla bita og sett út í pottrétti, súpur og margt fleira. Í mörgum Evrópulöndum er beikon og annað saltað og/eða reykt svínakjöt fyrst og fremst notað til að bragðbæta ýmsa rétti.

Orðið er komið úr ensku bacon, sem á rætur að rekja til fornfrönsku bacon, frá fornháþýsku bacho sem þýðir „þjór“ eða „læri“ og er af sama stofni og orðið „bak“.

Heimildir

breyta
  • Alan Davidson (1999). The Oxford Companion to Food. Oxford University Press.
  • „Reglugerð um kjöt og kjötvörur. Á reglugerd.is. Skoðað 8. mars 2011“.
   Þessi matar eða drykkjargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.