Austurlandafræði
Austurlandafræði (e.Orientalism) er stefna í listasögu, sagnfræði og öðrum fræðigreinum þar sem menning, saga og fólk Mið-Austurlanda eru oft einfölduð og rangtúlkuð.
Er þessi einföldun fyrst og fremst gerð til að passa inn í fyrirframgefnar hugmyndir um Mið-Austurlönd og reiðir sig þess vegna á róttgrónar staðalímyndir. Í bók sinni Orientalism sem kom út árið 1978 skoðar Edward Said þessa stefnu með gagnrýnum augum. Að hans mati er stefnan auðvaldsstofnun (e. corporate institution) byggð á alhæfingum og staðalímyndum sem búa til sameiginlega ímynd af Mið-Austurlöndum og öðrum löndum Asíu fyrir Vestrinu. Fjölbreytileiki þessara landa sem er gífurlegur er í gegnum linsu Austurlandafræði ekki sýnilegur. Said nýtti sér kenningar Michel Foucault og Antonio Gramsci um menningarlegt forræði (e. cultural hegemony) í bókinni. Bókin hefur frá því hún kom út haft gífurleg áhrif á kenningar í síðnýlendufræði, kynjafræði, listasögu og öðrum greinum.[1]
Kenningar Said hafa ekki verið teknar alls staðar með lofi. Í grein sinni í The Guardian segir listgagnrýnandinn Jonathan Jones að Austurlandafræði sé ekki byggð á staðalímyndum og rangtúlkunum heldur sé byggð á einlægum áhuga og ástríðu 19. og 20. aldar fræðimanna á þessu svæði heimsins. Langt frá því að vera rasísk og hrokafull einföldun á fjölbreyttu menningarsvæði sé Austurlandafræði byggð á aðdáun fyrir þessari menningu.[2]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Hver var Edward W. Said og hvert var hans framlag til vísinda og fræða?“. Vísindavefurinn. Sótt 22. október 2024.
- ↑ Jones, Jonathan (22. maí 2008). „Orientalism is not racism“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Sótt 22. október 2024.