Augusta Svendsen (Arnórína Ágústa Snorradóttir Svendesen) (9. febrúar 1835- 19. maí 1924) var kaupkona í Reykjavík. Hún fæddist 1835 í Keflavík og lést árið 1924 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Kristín Gunnarsdóttir og séra Snorri Sæmundsson. Ágústa Svendsen er talin fyrsta kaupkonan í Reykjavík en hún rak verslun í Reykjavík frá árinu 1887.

Hún kom til Íslands frá Kaupmannahöfn árið 1886 með dóttur sinni Henriettu Louise sem gift var Birni Jenssyni kennara við Reykjavíkurskóla. Ágústa hóf verslunarrekstur í þakherbergi við Bankastræti en árið 1903 keypti hún Aðalstræti 12. Hún rak þar verslun á fyrstu hæð en dóttir hennar bjó með fjölskyldu sinni í húsinu.

Augústa giftist Hendrik Henckel Svendsen en hann rak verslun á Djúpavogi. Hann dó 1862 og varð þá verslunin gjaldþrota. Ágústa var þá í Kaupmannahöfn með börnin. Tvö af börnum hennar fóru þá í fóstur en Ágústa fór með eldri dóttur sína Louise til Ísafjarðar til Lárusar Snorrasonar bróður síns, sem var kaupmaður þar.

Ágústa kenndi hannyrðir og stofnaði skóla fyrir stúlkur ásamt Sigríði konu Ásgeirs Ásgeirssonar, kaupmanns á Ísafirði. Ágústa fór seinna með Lárusi bróður sínum til Kaupmannahafnar. Hún setti þar á stofn matsölu en flutti aftur til Íslands með dóttur sinni. Þegar tengdasonur Ágústu lést árið 1904 voru barnabörn hennar á aldrinum þriggja til sextán ára. Ágústa tók þá að sér að sjá um heimilið þótt hún væri þá um sjötugt.

Heimildir

breyta
  • Augusta Svendsen (Kvennasögusafn Íslands)
  • Bréfasafn Augustu Svendsen (Morgunblaðið 2. desember 2001)
  • Björg Einarsdóttir: Úr ævi og starfi íslenskra kvenna, I. bindi, bls. 22-39.
  • Ragnheiður Ó. Björnsson, Einstæð menningarmiðstöð - Verslun Águstu Svendsen (Grein í tímaritinu Heima er best).
  • Sigríður Th. Erlendsdóttir, „Reykvískar konur í atvinnulífinu 1880-1914“, Reykjavík miðstöð þjóðlífi, Ritstjóri Kristín Ástgeirsdóttir (Reykjavík: Sögufélag 1977), bls. 41-61.
  • Vilhjálmur Þ. Gíslason, „Upphaf sérverslunar í Reykjavík “, Reykjavík í 1100 ár,  Helgi Þorláksson sá um útgáfuna (Reykjavík: Sögufélag 1974), bls. 190-203.