Artúr konungur

(Endurbeint frá Arthur konungur)

Artúr konungur er, í breskri þjóðtrú, leiðtogi Fornbreta sem er sagður hafa barist gegn saxneskum innrásarmönnum á seinni hluta fimmtu aldar og byrjun þeirrar sjöttu. Flestar frásagnir af Artúr konungi koma úr þjóðsögum og rómantískum skáldskap og deilt er um hvort hann hafi verið til í alvöru.[1] Fáeinar sögulegar heimildir eru til sem gætu bent til þess að til hafi verið konungur eða höfðingi að nafni Artúr, þ. á m. Annales Cambriae, Historia Brittonum og sagnverk eftir Gildas. Minnst er á nafn Artúrs í miðaldaskáldskap á borð við Y Gododdin.[2]

Mynd af Artúr konungi úr velskri útgáfu af Historia Regum Britanniae eftir Geoffrey frá Monmouth frá 15. öld.

Artúr er mikilvæg persóna í breskri sagnahefð. Hinn þjóðsögulegi Artúr varð vinsæl persóna á alþjóðavísu með sagnaritinu Historia Regum Britanniae eftir Geoffrey frá Monmouth.[3] Artúr birtist einnig í eldri þjóðsögum og ljóðum af velskum og fornbreskum uppruna þar sem hann er ýmist mikill stríðsmaður sem ver Bretland gegn jarðneskum og yfirnáttúrulegum ógnum, eða kynngimögnuð vera úr handanheimi velskrar þjóðrúar, Annwn.[4] Óvíst er hve mikið Geoffrey fékk úr slíkum heimildum og hve mikið hann fann upp sjálfur.

Efni, atburðir og persónur Artúrsgoðsagnarinnar voru mjög margbreytileg eftir textum og engin ein frásögn þykir réttari en önnur. Í frásögn Geoffrey er Artúr konungur Bretlands sem sigraði Saxana og stofnaði mikið veldi sem spannaði Bretland, Írland, Ísland, Noreg og Gallíu. Mörg atriði sem urðu síðar mikilvæg einkenni Artúrssagnanna birtast fyrst í Historiu Geoffrey, þ. á m. galdrakarlinn Merlín; faðir Artúrs, Uther Pendragon, eiginkona hans Guinevere, sverðið Excalibur, getnaður Artúrs í kastalanum Tintagel, lokaorrusta Artúrs við illmennið Mordred og hinsta hvíld hans á galdraeyjunni Avalon. Á 12. öld bætti franski rithöfundurinn Chrétien de Troyes persónunni Lancelot og leitinni að hinum heilaga gral við sagnahefðina. Með honum hófust Artúrssögur sem sérstakur sagnageiri ævintýra á miðöldum. Í þessum frönsku sögum er oft einblínt á aðrar persónur en Artúr sjálfan, eins og hina ýmsu riddara hringborðsins. Blómaskeið Artúrssagna var á miðöldum en á seinni öldum döluðu vinsældir þeirra. Þær urðu aftur vinsælar á 19. öld og lifa enn góðu lífi á 21. öldinni í kvikmyndum, leikhúsi, sjónvarpi, myndasögum og ýmsum öðrum sagnamiðlum.

Tenglar

breyta
  • Terry Gunnell (12. apríl 2000). „Voru Camelot og Excalibur til?“. Vísindavefurinn. Sótt 2. maí 2024.

Tilvísanir

breyta
  1. Higham, N. J. (2002), King Arthur, Myth-Making and History, London: Routledge, bls. 11–37.
  2. Charles-Edwards, Thomas M. (1991), "The Arthur of History", in Bromwich, Rachel; Jarman, A. O. H.; Roberts, Brynley F., The Arthur of the Welsh, Cardiff: University of Wales Press, bls. 15.
  3. Thorpe, Lewis, ed. (1966), Geoffrey of Monmouth, The History of the Kings of Britain, Harmondsworth: Penguin.
  4. Padel, O. J. (1994), "The Nature of Arthur", Cambrian Medieval Celtic Studies.