Arnarhvoll eða Arnarhváll er bygging í miðborg Reykjavíkur þar sem fjármálaráðuneyti Íslands er til húsa. Hinu megin við götuna er Seðlabanki Íslands við Arnarhól og skammt frá er Þjóðleikhúsið. Útidyrahurðin við Arnarhvol er útskorin af Ríkarði Jónssyni. [1]

Á millistríðsárunum var um það rætt að Stjórnarráðshúsið væri of lítið og þörf væri á frekara skrifstofuhúsnæði. Margar af skrifstofum á vegum ríkisins voru í leiguhúsnæði og því var ákveðið að byggja stóra skrifstofubyggingu á árunum 1929-30. Á fyrstu árunum áttu ýmsar stofnanir aðsetur á Arnarhvoli, til dæmis Búnaðarbankinn, Skipaútgerð ríkisins og lögreglan í Reykjavík. Nokkuð sniðug nýjung þótti felast í húsinu þar eð það hafði „eldtrygg hólf til geymslu fyrir sköl og bækur”.

Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar þrengdist á ný um ríkisstarfsmenn sem fjölgaði óðum og sá Alþingi því ástæðu til þess að veita fé til viðbyggingar við Arnarhvol svo að Hæstiréttur Íslands fengi húsnæði við hæfi. Bygging hófst seint á árinu 1945 og var lokið vorið 1948.

Heimild

breyta
  • Agnar Kl. Jónsson (1969). Stjórnarráð Íslands 1904-1964. Sögufélagið., bls 943-8

Tilvísanir

breyta
  1. Arnarhvoll; grein í Alþýðublaðinu 1930

Tenglar

breyta