Aristarkos frá Samóþrake

(Endurbeint frá Aristarkus frá Samoþrake)
Um stjörnufræðinginn Aristarkos, sjá Aristarkos frá Samos. Um aðra menn með sama nafni, sjá Aristarkos.

Aristarkos (Ἀρίσταρχος, 220? - 143 f.Kr.?), frá grísku eyjunni Samóþrake, var málfræðingur og er einkum minnst fyrir að vera áhrifamesti fræðimaður Hómersfræða. Hann var bókasafnsstjóri bókasafnsins í Alexandríu og virðist hafa tekið við þeirri stöðu af kennara sínum Aristófanesi frá Býzantíon.

Hann ritstýrði mikilvægustu útgáfunni á texta Hómerskviða og er sagður hafa bætt við ákvæðismerkjum þeim sem Aristófanes, kennari hans, bjó til. Sennilegt þykir að annaðhvort hann eða, sem er líklegra, annar alexandrískur fræðimaður, Zenódótos, beri ábyrgð á skiptingu Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu í 24 bækur hvorri. Samkvæmt upplýsingum í Suda samdi Aristarkos 800 ritgerðir (ὑπομνήματα) um ýmis efni en allar hafa glatast. Brot eru arðveitt í ýmsum fornum ritskýringum.

Sögum um dauða Aristarkosar ber ekki saman, þótt þær séu á einu máli um að hann hafi dáið meðan á ofsóknum Ptolemajosar VIII stóð. Samkvæmt einni sögu þjáðist Aristarkos af ólæknandi bjúg og á þá að hafa svelt sig til dauða í útlegð á Kýpur.

Tengsl Aristarkosar við textafræði, textarýni og bókmenntarýni hafa getið af sér hugtakið aristark (e. aristarch) sem er notað um þann sem er góður og skynsamur texta- og bókmenntarýnir.

Heimild

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Aristarchus of Samothrace“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. júlí 2006.

Tengt efni

breyta
   Þessi fornfræðigrein sem tengist sögu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.