Þessi grein fjallar um guðfræðinginn Aríus. Um mannsnafnið, sjá Aríus (mannsnafn)

Aríus frá Alexandríu (fæddur einhvern tímann á árunum 250-256, dáinn 336) var kristinn guðfræðingur á þriðju og fjórðu öld. Hann setti fram kenningar sem höfnuðu þrenningarkenningunni (sem var tilraun til að sætta guðlegt eðli Jesú við grunnsetningu eingyðistrúar). Voru þær kallaðar Aríusartrú eða, af eindregnari andstæðingum sínum, Aríusarvilla. Kenningar hans urðu undir eftir miklar deilur á kirkjuþinginu í Níkeu 325 þegar reynt var að ná sátt innan kirkjunnar um grundvallarkenningar hennar.

Aríusartrú var sú trú sem gotneski trúboðinn Wulfila tók og boðaði meðal Austgota. Mörg fyrstu germönsku konungdæmin tóku upp aríska trú þegar þau snerust til Kristni og tóku ekki upp Níkeujátninguna fyrr en á 7. og 8. öld.

Ævi Aríusar

breyta

Ýmislegt er á huldu um Aríus og kenningar hans. Eftir að andstæðingar hans höfðu betur í deilum þeirra, var gengið milli bols og höfuðs á hreyfingu Aríusarsinna, og öllum frumheimildum sem í náðist var eytt. Helstu heimildir um Aríus koma því úr skrifum andstæðinga hans, sem úthrópuðu hann fyrir villutrú og geta því vart talist hlutlægir. Einu skrifin sem eru eignuð honum og hafa varðveist, eru fáein bréf, auk brotakenndra leifa af ritinu Thalia, alþýðlegu verki sem samanstóð bæði af bundnu máli og óbundnu.

Að sama skapi er ekki mikið vitað með vissu um manninn Aríus. Talið er að hann gæti hafa verið af lýbísku og berbísku bergi brotinn, og faðir hans er sagður hafa heitið Ammóníus. Aríus nam í Antíokkíu hjá Lúsíanusi, sem þar var skólameistari og var síðar tekinn í tölu heilagra. Hann tók við söfnuði í Alexandríu árið 313. Þrátt fyrir miklar árásir andstæðinga sinna, virðist Aríus hafa verið siðvandur og trúr sannfæringu sinni, og komið vel fyrir. Aríus gerði mislukkaða tilraun til að verða skipaður patríarki í Alexandríu.

Helstu kenningar

breyta

Aríus kenndi að sem sonur guðs væri Jesús ekki eilífur, þar sem hann ætti sér upphaf í tíma, og væri Guð faðirinn yfir hann settur. Þessi kenning naut talsverðrar hylli lengi vel eftir að hún var sett fram.

Hann hélt fram annarri kenningu um þrenninguna en viðtekin var hjá kirkjunni. Hún fólst í grundvallaratriðum í því að þar sem guð (faðirinn) hefði getið guð (soninn), þá ætti hinn getni sér upphaf í tíma. Aríus er talinn hafa verið undir áhrifum frá Lúsíanusi frá Antíokkíu, eða því hélt Alexander af Alexandríu fram í bréfi til Alexanders biskups af Konstantínópel. Píslarvotturinn Lúsíanus var samt ekki sakaður um villutrú sjálfur, en þó var sagt að hugmyndir hans hefðu stundum verið á skjön við kenningu kirkjunnar.

Alexander patríarki af Alexandríu var gagnrýndur harðlega fyrir hæg viðbrögð við Aríusi. Sú gagnrýni þykir þó ekki fyllilega réttmæt, þar sem sama hugmynd hafði komið fram áður og ekki verið rædd til lykta. Að svo miklu leyti sem niðurstaða fékkst í fyrri umræðum, var hún frekar og öðrum andstæðingum homoousion-kenningarinnar (gríska, samsemd eða sameðli), það er að segja þeim sem voru á sama máli og Aríus seinna. Alexander lét málið því eiga sig þangað til honum þótti friði innan kirkjunnar stefnt í voða. Þá afréð hann, að höfðu samráði við fleiri biskupa, að svipta Aríus trúnaðarstörfum fyrir kirkjuna, og bannfæra hann.

Auk samsemdar-hugmyndarinnar má skilja af heimildum að Aríus hafi hneigst til eins konar únitarisma síns tíma, að guð hafi verið einn og óskiptur. Því er talið að hann hafi ekki aðhyllst hugmyndir um heilaga þrenningu.

Menn þykjast greina áhrif ný-platónisma og gnostisisma í hugmyndum Aríusar um sköpunina, en Aríus mun hafa haldið því fram að Jesús einn hefði verið beinlínis skapaður af guði, og allt annað hefði síðan verið skapað í gegn um Orðið.

Níkeuþingið

breyta

Á kirkjuþinginu í Níkeu árið 325 var kenning Aríusar dæmd villutrú, og var Níkeujátningin[1] („symbolum nicaenum“ á latínu) samin, af því tilefni til að skýra, betur en áður var, hvað „rétt trú“ fæli í sér, varðandi eðli guðdómsins. Í Níkeujátningunni kemur fram að eðli þeirra sé hið sama. Níkeujátningin í þeirri mynd sem við þekkjum hana í dag, var fullfrágengin í Konstantínópel árið 381.

Á Níkeuþinginu reyndust flestir vera andvígir Aríusi, þótt skoðanir væru skiptar. Tveim árum síðar, árið 327, lést Alexander af Alexandríu, og Aþanasíus var skipaður biskup í hans stað. Í hans biskupstíð var Aríusi hleypt heim úr útlegð í Palestínu, gegn því að hann endurorðaði kenningar sínar um eðli Jesú. Andstæðingar Aþanasíusar komust í náðina hjá keisaranum, og hann skipaði Aþanasíusi að taka bannfæringuna á Aríusi til baka. Þegar Aþanasíus neitaði að gera það, var hann settur af og sendur í útlegð fyrir landráð. Það kom svo í hlut Alexanders af Konstantínópel að aflétta bannfæringunni, og þorði hann ekki annað. Bað hann fylgismenn sína að biðja til guðs, að Aríus mundi láta lífið áður en hann næði að ganga til altaris. Það var reyndar það sem gerðist: Daginn áður en aflétta átti bannfæringunni, þá andaðist Aríus.

Andstæðingar Aríusar trúðu því, margir hverjir, að dauða hans hefði borið að höndum fyrir kraftaverk. Aðrir álitu líklegra að eitrað hefði verið fyrir honum. Deilurnar hjöðnuðu nokkuð við fráfall Aríusar, en áttu þó eftir að halda lengi áfram.

Tilvísanir

breyta
  1. [1] Geymt 31 janúar 2015 í Wayback Machine