Anjelica Huston
Anjelica Huston (f. 8. júlí 1951) er bandarísk leikkona, leikstjóri, framleiðandi, rithöfundur og fyrrverandi tískufyrirsæta. Hún er dóttir kvikmyndaleikstjórans John Huston og barnabarn leikarans Walter Huston. Hún starfaði sem tískufyrirsæta á 8. áratugnum en hóf leiklistarferil á 9. áratugnum. Hún sló fyrst í gegn í kvikmyndinni Heiður Prizzis frá 1985, sem faðir hennar leikstýrði. Hún hlaut Óskarsverðlaun sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í myndinni.
Síðan þá hefur Anjelica Huston fengið tilnefningar til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndunum Óvinir, ástarsaga (Enemies, A Love Story - 1989) og Bragðarefir (The Grifters - 1990), til BAFTA-verðlauna fyrir Glæpir og afbrot (Crimes and Misdemeanors - 1989) og Morðgáta á Manhattan (Manhattan Murder Mistery - 1993), og til Golden Globe-verðlauna fyrir hlutverk sitt sem Morticia Addams í Addams-fjölskyldan (Addams Family - 1991) og framhaldsmyndinni Addams-fjölskyldugildin (Addams Family Values - 1993). Huston hefur leikið í nokkrum af myndum Wes Anderson, eins og Tenenbaum-fjölskyldan (The Royal Tenenbaums - 2001), Sjávarlífsævintýri Steve Zissou (The Life Aquatic with Steve Zissou - 2004) og Lestarferðin (The Darjeeling Limited - 2007).