Angíótensín II
Angíótensín II er hormón sem kemur víða við sögu í stjórnkerfi blóðþrýstings og vökvajafnvægis í mannslíkamanum. Áhrif angíótensíns II sameinast í virkni þess á þvag- og blóðrásarkerfið. Angíótensín II er virka efnið í renín-angíótensín kerfinu.[1]
Renín-angíótensín kerfið
breytaRenín-angíótensín kerfið er flókið hormónakerfi sem stjórnar blóðþrýstingi.[1] Renín-angíótensín kerfið virkjast þegar enzýminu reníni er seytt frá nærhnoðrafrumum nærhnoðratækis í aðlægum slagæðlingum nýrnahnoðra t.d. þegar blóðrúmmál minnkar, súrefnisbindigeta nýrnunga er léleg eða blóðþrýstingur fellur. Þegar reníni er seytt út í blóðrásina umbreytir það óvirka peptíðinu angíótensínógen, sem framleitt er í lifur, í angíótensín I. Óvirku angíótensín I er svo breytt í virkt angíótensín II fyrir tilstuðlan angíótensín breytiensímsins (ACE).[1][2][3] Angíótensín breytiensímið var áður talið aðeins finnast í háræðaþeli lungna en nú er vitað að breytiensímið finnst í miklu magni í æðaþeli um allan líkamann.[1]
Renín ACE ↓ ↓ Angíótensínógen → Angíótensín I → Angíótensín II
Stjórnkerfi angíótensín II
breytaAngíótensín II gegnir margþættu hlutverki á samvægi líkamans (homeostasis) en eitt helsta hlutverk angíótensíns eru bein áhirf þess á rúmmál slagæða og þ.a.l. á blóðþrýsting og örvun þess á seytingu aldesteróns frá nýrnahettuberki.[3] Angíótensín II er virkur æðaþrengir um allan líkamann og spilar stórt hlutverk í viðhaldi blóðþrýstings og blóðflæðis, sérstaklega til nýrna. Hnoðrasíunarhraða (GFR) í nýrungum er viðhaldið innan ákveðinna marka og er það að stórum hluta fyrir tilstuðlan angíótensíns II. Þar sem hnoðrasíunarhraði endurspeglast í þrýstingi í hnoðra hverju sinni (og gegndræpi hans) verður líkaminn að viðhalda ákveðnum blóðþrýstingi og tryggja blóðflæði til nýrna. Þegar blóðþrýstingur fellur eða blóðflæði til nýrna skerðist skynja nærhnoðafrumur í aðlægum slagæðlingum hnoðra minnkað flæði og losa renín. Eins og kom fram hér áðan hvetur renín til myndunar á angíótensín I sem svo verður að angíótensín II fyrir tilstuðlan angíótensín breytiensíms. Angíótensín II sest í sérstaka viðtaka í æðum og veldur æðasamdrætti. Aukið viðnám í æðakerfinu og þá sérstaklega í frálægum slagæðlingum hnoðra eykur þrýstinginn inn í hnoðrum og hnoðrasíunarhraði kemst í fyrra horf. Einnig er talið að angíótensín II auki gegndræpi hnoðra og viðhaldi þannig hnoðrasíunarhraða.[1] Þannig viðhöldum við nægilegri síun blóðs í nýrum þrátt fyrir að heildar blóðflæði um nýrun sé minnkað:
- ↓blóðþrýstingur→ ↓GFR→ ↑renín → ↑angíótensín II → ↑viðnám æða → ↑blóðþrýstingur→ ↑GFR
Angíótensín II fer einnig aðrar leiðir til að hafa áhrif á blóðþrýsting. Angíótensín II nemar í undirstúku heila virkja losun þvagtemprandi hormóns (ADH) eða vasópressíns úr aftari hluta heiladinguls. Þvagtemprandi hormón veldur því að vökva er haldið eftir í nýrum þannig að blóðrúmmál eykst og blóðþrýstingi er viðhaldið.[1]
Aukið magn angíótensín II í blóði framkallar þorstatilfinningu og við aukna vökvainntekt eykst rúmmál blóðsins og blóðþrýstingur eykst.[1][3] Einnig eru angíótensín II viðtakar í hjarta- og blóðrásarstjórnstöðvum í mænukylfu. Þegar þeir virkjast aukast drifkerfisáhrif á hjartað og æðar, þ.e. aukning á útfalli hjartans og aukinn æðasamdráttur sem verður til þess að blóðþrýstingur hækkar. Í nýrnahettuberki hvetur angíótensín (ekki er vitað hvort um sé að ræða angíótensín II eða III) til losunar á aldósteróni. Aldósterón er hormón sem virkar á nýrnapíplur og safnrásir nýrnaog eykur þar endurupptöku á natríum og vatni frá þvagi sem stuðlar enn frekar að hækkuðum blóðþrýstingi.[1]
- ↑angótensín II→ ↑aldósterón→ ↑endurupptaka vatns og natríums→↑blóðþrýstingur
Angíótensín breytiensímshemlar
breytaVísindamenn hafa þróað blóðþrýstingslyf út frá þeirri þekkingu sem hefur þróast á blóðþrýstingshækkandi áhrifum angíótensíns II. Aðallega er um að ræða svokallaða blóðþrýstingslækkandi angíótensín breytiensímshemla (ACE-inhibitors) en eins og fram hefur komið hvatar angíótensín breytiensím breytingu óvirks angíótensíns I í virkt angíótensín II. Angíótensín breytiensímshemlar koma þannig í veg fyrir breytingu angíótensíns I í angíótensín II og hindrar þannig öll þau áhrif sem hormónið hefur á blóðþrýsting.[1][2][3]:
- ↓angíótensín II → ↓viðnám í æðum → ↓blóðþrýstingur
- ↓angíótensín II → ↓aldósterón → ↓endurupptaka vatns og natríums → ↓blóðþrýstingur
Önnur áhrif angíótensín breytiensíms er að það veldur niðurbroti á æðavíkkandi hormóninu bradýkínín en þegar angíótensín breytiensímshemlar eru gefnir er komið í veg fyrir niðurbrotið með þeim afleiðingum að blóðþrýstingur lækkar.[1] Angíótensín breytiensímshemlar hafa því tvöfalda virkni, þeir koma í veg fyrir áhrif angíótensín II á blóðþrýsting þannig að viðnám slagæða minnkar, rúmmál bláæða eykst, viðnám í æðum nýrna minnkar auk þess sem að þau stuðla að auknu magni æðavíkkandi braýkíníns í blóði:
- ↓ACE → ↓angíótensín II → ↓viðnám æða → ↓blóðþrýstingur
- ↓ACE → ↑bradýkínín → ↓viðnám æða → ↓blóðþrýstingur
Afleiðingin er minnkaður blóðþrýstingur, minni framleiðsla og seytun á þvagtemprandi hormóni og minnkun á seytingu aldósteróns.
Angótensín II viðtakahemlar
breytaHjá sumum sjúklingum getur hækkað bradýkínin í blóði valdið þurrum, hörðum hósta og hafa því verið þróuð lyf sem kallast angótensín II viðtakahemlar, en þau koma í veg fyrir blóðþrýstingshækkandi áhrif angíótensíns II án þess að hafa áhrif á niðurbrot bradýkíníns.[1] Angíótensín II viðtakahemlar eru hindrunarefni (antagonists) með sérhæfða sækni í AT1 viðtaka angíótensíns II. Þannig koma þeir í veg fyrir að angíótensín II setjist í viðtaka sína í vefjum, hvort sem þeir eru í æðum, heila eða nýrnahettuberki, og blóðþrýstingshækkandi áhrif þess.[3] Áhrif angíótensín II viðtakahemla eru þar af leiðandi æðavíkkun (viðtakar í æðum), minnkun á framleiðslu og seytingu aldósteróns (viðtakar í nýrnahettuberki) og minnkar seytingu á þvagtemprandi hórmóni (viðtakar í heila). Samanlögð áhrif eru minnkun á blóðþrýstingi og lyfið því gefið við háþrýstingi, oft sjúklingum sem eru ónæmir eða með óþol fyrir angíótensín breytiensímshemlum.[1][2][3]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 1,10 1,11 Silverthorn, Dee Unglaub (Ritstj.). 2007. Human Physiology: An Integrated Approach. (4. úgáfa). San Francisco, CA: Pearson Education, Inc.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Karch, Amy M. (Ritstj.). 2008. Focus on Nursing Pharmacology. (4. útgáfa). Philadelphia, PA: Lippincott Williams & Wilkins.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 Widmaier, Eric P., Raff, H. og Strang, K.T. (Ritstj.). 2006. Vander´s Human Physiology: The Machanisms of Body Function. (10. útgáfa). New York, NY: McGraw-Hill, Inc.