Slagæð
Slagæð er æð, sem flytur (súrefnisríkt) blóð frá hjarta um líkamann og út í háræðarnar. Lungnaslagæðin er þar undanskilin en hún flytur súrefnissnautt blóð frá hjarta til lungnanna. Slagæðar eru þykkri en bláæðar, sem flytja súrefnissnautt blóð aftur til hjartans, svo að þær standist þrýstinginn, sem myndast í þeim þegar hjartað slær.
Slagæðar hafa þrjú vefjalög (talin innanfrá):
- innhjúp, sem er úr einföldu lagi af þekjufrumum og gerir innra borð æðanna sleipt svo að blóðið renni óhindrað
- miðhjúp úr teygjanlegum bandvef og sléttum vöðvavef
- úthjúp úr bandvef, sem festir æðina við vefina sem hún liggur um.
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu Slagæð.