Alexander Fenton eða Sandy Fenton (26. júní 19299. maí 2012) var skoskur þjóðfræðingur og þjóðháttafræðingur sem var þekktur fyrir rannsóknir sínar á þjóðháttum og menningu Skotlands, Orkneyja og Hjaltlands. Hann var lengst af búsettur í Edinborg.

Alexander Fenton fæddist í Shotts í Lanarkshire, Skotlandi. Foreldrar hans voru Alexander Fenton og Annie Stronach. Hann hlaut menntun í Auchterless á heimaslóðum, og fór síðan í Háskólann í Aberdeen. Hann lagði stund á framhaldsnám í Cambridge, einkum í fornleifafræði og mannfræði, með norræn tungumál sem aukafag. Hann varð vel læs á dönsku, sænsku, íslensku og færeysku. Hann var mikill málamaður, talaði skosku og gelísku, var læs á írsku og velsku, og hafði gott vald á þýsku, frönsku og ungversku. Hann lauk doktorsprófi við Háskólann í Edinborg.

Fenton fékkst við orðabókarstörf 1955–1959 (Scottish National Dictionary), varð svo safnvörður við Þjóðminjasafnið í Edinborg (National Museum of Antiquities of Scotland) 1959–1975, deildarstjóri 1975–1978 og forstöðumaður safnsins 1978-1985. Var í Þjóðminjaráði Skotlands 1979–1994. Jafnframt fékkst hann við kennslu í Háskólanum í Edinborg, einkum í skoskri þjóðfræði, og veitti forstöðu School of Scottish Studies.

Rannsóknir og ritstörf Fentons snerust einkum um þjóðfræði og þjóðhætti Skotlands, en hann setti efnið einnig fram í víðara samhengi. Alls birti hann um 300 ritsmíðar um margvísleg efni, og er hann talinn með fremstu þjóðfræðingum sinnar tíðar.

Alexander Fenton hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir störf sín, svo sem CBE orðuna. Hann kvæntist um 1956, Evelyn, fædd Hunter. Þau eignuðust tvær dætur.

Helstu rit breyta

  • The Northern Isles, Orkney and Shetland, Edinburgh 1978. — Grundvallarrit í norrænni þjóðháttafræði, 2. útg. 1997.
  • The Island Blackhouse, Edinburgh 1978. — 2. útg. 1989.
  • Scottish Life and Society: The Food of the Scots, Edinburgh 2007. — Scottish Ethnology, 5. bindi.
  • Scottish Life and Society: Boats, Fishing and the Sea, Edinburgh 2008. — Ritstj. með öðrum. Scottish Ethnology, 4. bindi.
  • Country Life in Scotland, Edinburgh 2008.
Ritstjórn.
  • The Northern and Western Isles in the Viking World. Survival, Continuity and Change, Edinburgh 1984. — Meðritstjóri: Hermann Pálsson.

Tenglar breyta