Accrington Stanley
Accrington Stanley er enskt knattspyrnufélag sem spilar í Ensku annari deildinni. Liðið er frá samnefndum bæ í Lancashire og var stofnað árið 1968. Stuðningsmenn félagsins reka þó sögu sína aftur til eldri knattspyrnufélaga frá sama bæ.
Saga
breytaAccrington FC var stofnað árið 1878 og var í hópi tólf stofnfélaga ensku deildarinnar árið 1888. Fljótlega tók að síga á ógæfuhliðina hjá félaginu og var það lagt niður árið 1896. Nokkrum árum fyrr, 1891, var annað knattspyrnufélag stofnað í bænum: Accrington Stanely FC. Það fékk aðild að ensku deildarkeppninni árið 1921 og lék þar sleitulaust til ársins 1962, þegar það lenti í miklum fjárhagsörðugleikum og tókst ekki að ljúka keppnistímabilinu. Var það aðeins í annað sinn í sögu deildarkeppninnar sem það gerðist. Félagið hóf keppni í héraðsmóti Lancashire en rekstrarörðugleikarnir héldu áfram og árið 1966 var það lýst gjaldþrota.
Tveimur árum síðar var nýtt félag stofnað með sama nafni. Það hóf keppni á nýjum velli, Crown Ground, sem er heimavöllur þess enn í dag. Við tók löng vist í héraðsdeildum neðarlega í knattspyrnupýramída Englands. Fæstir hefðu heyrt á félagið minnst ef ekki hefði verið fyrir eftirminnilega auglýsingu breskra mjólkurframleiðenda, þar sem tveir drengir gantast með að sá sem ekki drekki mjólk geti í besta falli látið sig dreyma um að leika með Accrington Stanley. Enn í dag er það vinsælt efni gamanmála hjá íþróttafréttamönnum að spyrja í forundran: „Accrington Stanley? Hverjir eru það?“, þegar félagið ber á góma, með vísun í auglýsinguna.
Nýir og fjársterkir eigendur lögðu grunnin að klifri Accrington Stanley upp utandeildirnar á tíunda áratug síðustu aldar. Mikilvægasti einstaki atburðurinn var þó þegar Brett Ormerod, fyrrum leikmaður liðsins, var seldur fyrir meira en milljón pund frá Southampton F.C. til Blackpool síðla árs 2001, en fjórðungur upphæðarinnar rann til Accrington. Með þessa fjármuni að vopni tókst félaginu að komast upp í efstu deild ensku utandeildarkeppninnar árið 2003. Fyrir leiktíðina 2004-05 var full atvinnumennska tekin upp hjá félaginu, en fram að því höfðu leikmenn verið hálfatvinnumenn. Sú breyting skilað skjótum árangri og vorið 2006 tryggði Accrington sér sæti í annarri deild í fyrsta sinn.
Fyrstu árin í deildarkeppninni var Accrington í hópi neðri liða, enda hafði það úr minni fjárhæðum að spila en flest hinna liðanna sem fengu mun fleiri áhorfendur á leiki sína. Vorið 2011 komst félagið þó í umspilsleiki um sæti í fyrstu deild, en tapaði fyrir Stevenage. Leiktíðina 2017-18 kom Accrington Stanley verulega á óvart með því að fara með sigur af hólmi í annarri deild, þrátt fyrir að vera talið verja næstminnstu fjárhæð allra liðanna í launagreiðslur. Þar með komst félagið í fyrsta sinn í sögunni upp í þriðju efstu deild.
Heimildir
breytaFyrirmynd síðunnar er enska Wikipediu-síðan um Accrington Stanley F.C. Sótt í ágúst 2018.