Elínborg Þorbjarnardóttir

Elínborg Þorbjarnardóttir (1860–1947), fullu nafni Þuríður Elínborg Þorbjarnardóttir, var húsfreyja á Gufuskálum

Elínborg var fædd á Broddanesi í Strandasýslu 9. mars 1860. Hún var dóttir Sólborgar Sigurðardóttur og Þorbjörns Oddssonar. Ung fluttist Elínborg vestur á Snæfellsnes og giftist þar árið 1897 Sæmundi Guðmundssyni. Þau byrjuðu búskap að Görðum, en fluttu ári síðar að Gufuskálum og bjuggu þar myndarbúi til ársins 1914, er Sæmundur drukknaði í róðri ásamt tveimur fóstursonum og vinnumanni.

Með 6 börn og eitt fósturbarn bjó hún á Gufuskálum til ársins 1941, er hún flutti til Reykjavíkur til dóttur sinnar Ásthildar.

Árið 1931 Gaf Elínborg út pésa lítinn, prentaðan, sem hét Gufuskálar. Þar segir hún um missi manns síns m.a.: „Þessi missir minn nam mér djúpt í hjarta,“

Í krafti kærleikans og miskunnseminnar er þetta bæn mín: Þú hinn voldugi herra hafs og lands, Drottinn allsherjar, blessa þú hafið og ströndina fyrir Gufuskálalandi, svo enginn, sem héðan leitar á sjóinn verði fyrir grandi, né neinn sá er leitar hér lands af sjónum farist, heldur læg þú öldurnar og stjórna hinu veika fleyi, lát engar bölbænir veikja hugi þeirra sem á hafið leita, heldur gef að þeir treysti þér einum og reiði sig á kraft þinn. Þín blessun hvíli yfir hverjum kima og hverjum tanga landsins, yfir hafinu og þeim sem á jörðinni búa nú og framvegis, meðan land er byggt.“

— Elínborg Þorbjarnardóttir (1931).

Árið 1942 skrifaði dr. Þorkell Jóhannesson í Andvara greinina „Þúsund ár“, meðal annars um heimsókn sína til Elínborgar á Gufuskálum.[1] Þar segir hann þetta um Elínborgu:

Hún er snoturlega búin, að nokkuð fornum hætti. Fas hennar allt ber glöggan vott um að, að hún er vön að stjórna og láta vilja sínum framgengt verða, ekki mjög gjarnt að sinna undanbrögðum eða andmælum, húsfreyja í orðsins fornu og veglegu merkingu.“

— Þorkell Jóhannesson (1942).

Elínborg Þorbjarnardóttir lést 4. ágúst 1947, 87 ára að aldri.

Bautasteinn til minningar um Elínborgu var afhjúpaður á sjómannadaginn 1989. Þetta er sæbarinn steinn úr hennar landareign, sem nokkrar konur úr Slysavarnardeild kvenna á Hellissandi ákváðu að reisa við Gufuskálavör.[2][3]

Tilvísanir

breyta
  1. Dr. Þorkell Jóhannesson (janúar 1942). „Þúsund ár“. Andvari. Sótt 8. feb. 2021.
  2. Svandís Elímundardóttir (apríl 1987). „Afhjúpun bautasteins Elínborgar Þorbjarnardóttur“. Breiðfirðingur. Sótt 8. feb. 2021.
  3. Jón Karl Helgason (ágúst 1987). „Tvennir tímar undir Jökli“. Vikan. Sótt 8. feb. 2012.