Íslenski þjóðbúningurinn

(Endurbeint frá Þjóðbúningurinn)

Íslenski þjóðbúningurinn er samheiti yfir nokkur klæði sem eiga að þykja einkennandi fyrir íslenska þjóð. Þetta eru ýmist gamlir búningar eða nýleg hönnun sem vísar í klæði forfeðranna. Nú eru búningarnir stundum notaðir við hátíðartilefni.

Saga íslenska þjóðbúningsins

breyta

Orðið „þjóðbúningur“ kom fyrst fram á 19. öld og á hvortveggja við þann forna klæðnað sem Íslendingar klæddust þá og svo þeim þjóðlega fatnaði sem var endursköpun á hefðbundnum klæðnaði fyrri alda.

Búningar kvenna

breyta
 
Skotthúfa

Til eru fimm klæðagerðir er taldar eru til þjóðbúninga kvenna. Eru þeir upphlutur, faldbúningur og peysuföt, er eru forn dagleg klæði kvenna ásamt kyrtli og skautbúningi er hannaðir voru sem frá upphafi sem þjóðlegur stássfatnaður.

Faldbúningur

breyta

Faldbúningurinn er forn búningur kvenna og þekkist hann allavega frá 17. öld og var hann notaður langt fram eftir 19. öldinni. Nafn búningsins er dregið af höfuðfati hans, sem hefur langt og bogið blað sem beygist til himins. Til eru tvær helstar útgáfur af þessum höfuðbúnaði, krókfaldurinn og spaðafaldurinn. Í forneskju var til siðs að setja önnur höfuðföt ofan á faldinn, svo sem brúðkaupsberettur sem og barðastóra hatta, en voldugur kragi búningsins er ætlaður til stuðnings við slík auka höfuðföt. Undir lok 18. aldar fóru konur að klæðast skotthúfum í stað faldsins við þennan búning.[1]

Peysuföt

breyta
 
Kona í peysufötum kennir dreng að lesa.

Peysufötin eiga upphaf sitt á 18. öld meðal vinnandi kvenna sem tóku að klæðast peysum karla og húfum, enda þóttu þau mun þægilegri en faldbúningurinn við slark og erfiðisvinnu. Urðu þau að dæmigerðum fatnaði almúgakvenna á 19. öld.[2]

Upphlutur

breyta

Upphluturinn er uppruninn úr undirfötum faldbúningsins, er varð að lokum sjálfstæður fatnaður.[3]

Kyrtill

breyta

Kyrtillinn var hannaður af Sigurði málara um miðja 19. öld. Var búningurinn hannaður með hliðsjón af því er menn töldu landnámskonur hafa klæðst. Höfuðbúnaður kyrtilsins er ekki ósvipaður þeim sem er á faldbúningnum.[4]

Skautbúningur

breyta

Skautbúningurinn var einnig hannaður af Sigurði. Var hann hugsaður sem nútímalegri útgáfa af faldbúningnum sem hafði fallið mjög í vinsældum eftir miðja 19. öld.[5]

Búningar karla

breyta

Þjóðbúningur karla

breyta
 

Hinn almennt viðurkenndi þjóðbúningur karla stendur saman af ullarbuxum knésíðum eða síðbuxum, tvíhnepptu vesti og treyju eður mussu tvíhnepptri (einnig þekkist einhneppt peysa í stað treyjunnar) og skotthúfu.[6]

Fornmannaklæði eða litklæði

breyta
 
Jóhann Jósefsson glímukappi í fornmannaklæðum 1908.

Fornmannaklæðin sem Sigurður málari hannaði eru lítið notuð á 21. öldinni. Voru þau hönnuð, líkt og kyrtill kvenna, sem útgáfa af klæðum landnámsmanna. Urðu þau nokkuð vinsæl og klæddust menn þeim t.d. við konungskomuna 1907 og á alþingishátíðinni 1930, en hurfu svo nánast með öllu.[6] Fyrir alþingishátíðina átti Tryggvi Magnússon frumkvæði að því að ungmennafélagar létu sauma sér litklæði til að bera á hátíðinni og urðu nokkrir við því. Búningurinn var samt umdeildur frá upphafi og létu nokkrir gárungar í Reykjavík gera fornmannabúning handa Oddi sterka af Skaganum litklæðunum til höfuðs. Sumir sögðu þó að reiðtúrar Odds í búningnum hefðu orðið til þess að auka áhugann fremur en hitt.

Hátíðarbúningur

breyta
 
Maður í hátíðarbúningi á brúðkaupsdegi sínum.

Hátíðarbúningurinn er afrakstur samkeppni um þjóðlegan fatnað handa körlum fyrir lýðveldishátíðina 1994. Hann nýtur ekki jafnmikillar virðingar, enda er hann talinn skyldari færeyskum þjóðklæðum en íslenskum, en nýtur þó mikillar hylli.[6]

Þjóðbúningaráð

breyta

Árið 2001 var Þjóðbúningaráði komið á fót með lögum frá Alþingi en því er ætlað að varðveita þá þekkingu sem þarf til að búa til slíkan fatnað og vera til leiðbeiningar.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta