Þóf
Þóf er forn aðferð við að velkja ull til og frá og nudda til að hún verði þéttari og einangri betur. Klæði sem átti að þæfa var sett í bleyti áður en þófið hófst. Áður fyrr var klæði þæft í legi þar sem blandað var saman keytu og heitu vatni. Keytan virkaði eins og sápa. Í Skotlandi eru margar hefðir tengdar ullarþæfingu og þæfa margar konur saman efni í höndum og áðum með fótum. Sungnir eru sérstakir þæfingarsöngvar.
Auðvelt er að þæfa litlar prjónaðar flíkur. Þær eru bleyttar og svo nuddað saman á milli handa. Erfiðisverk var að þæfa vaðmál áður er vélar komu til sögu. Þófari var jafnan kófsveittur. Á Íslandi var algengt að þæfa undir fótum en þá var það sem átti að þæfa sett á pall og svo gengið á því þar til að var tilbúið. Það var kallað fótaþóf. Einnig tíðkaðist tunnuþóf ef verið var að þæfa stórar voðir. Þá var voð komið fyrir í botnlausri tunnu sem lá á hlið og tveir karlmenn settu fæturnar í sitt hvoru megin og stigu á móti hver öðrum.
Vatnsafl var mjög snemma virkjað í myllum til að knýja þæfingarvélar. Fyrsta vatnsvirkjun vegna þófaramillu sem vitað er um er í Normandí árið 1086. Þegar Innréttingarnar voru stofnaðar í Reykjavík af Skúla Magnússyni árið 1751 þá var stór hluti af rekstri þeirra ullarvinnsla. Við Elliðaárnar var sett upp á árbakkanum þófaramylla.
Á Íslandi er þekkt eftirfarandi þæfingavísa:
- Bárður mitt á Jökli
- komdu og leggstu á þófið mitt
- ég skal gefa þér lóna
- innan í skóna
- skeifubrot og naglatrjá
- og mórautt lambið þegar ég á
- láttu ganga þófið þá
- og ná, ná og ná, ná.
Heimildir
breyta- Jónas Jónsson frá Hrafnagili, Íslenskir þjóðhættir, 1945 bls.99-146
- Grein á ensku Wikipedia um Waulking
- Skýrsla 164 Minjastofnun 2014 Geymt 28 apríl 2016 í Wayback Machine