Öxarárfoss
Öxarárfoss er foss í Öxará við Þingvelli. Þar fellur áin fram af misgengisbrún í Þingvallahrauni. Þetta er sama misgengi og myndar Almannagjá. Fossinn er rúmlega 12 m hár. Síðan fellur áin í flúð fram af stórgrýtisurðinni neðanundir fossinum og niður í botn gjárinnar. Flúðin er um tveggja metra há. Heildarfallhæðin er því um 14 m. Breidd fossins er mjög misjöfn eftir vatnsmagni árinnar. Þegar mikið er í henni fyllir hún út í skarðið í brún gjárinnar sem er 26,5 m á breidd. Oftast er hann þó 5-10 m á breidd.
Björn Th. Björnsson listfræðingur lýsti Öxarárfossi og umgjörð hans: „Þótt Öxarárfoss sé ekki mikill í mælingum, er hann sérkennilega fagur, og ber margt til þess. Hann fellur af jafnri brún og hæfilega breiðri til að ljá honum einkar þokkafull hlutföll. Stórgrýti er undir, en ekki hylur, og veldur það miklum úða. En þannig hagar hér við sól, að síðari hluta dags stendur hún skáhallt eftir gjánni og ljómar upp fosslöðrið, svo fágætt er að sjá. Umgerðin sem gjáhamrarnir mynda er ekki sísti fegurðaraukinn, hvort heldur fossinn er í léttum sumarham eða í klakaböndum að vetri.“
Heimildir.
- Árni Hjartarson og Snorri Zóphóníasson 2010.Öxará. Náttúrufræðingurinn 90. árg.
- Björn Th. Björnsson 1994. Þingvellir, staðir og leiðir. Mál og menning, Reykjavík, 195 bls.