Örn (landnámsmaður)

Örn, landnámsmaður í Arnarfirði og síðar við Eyjafjörð, var frændi bræðranna Geirmundar og Hámundar heljarskinns en föðurnafn hans er óþekkt.

Örn fór af Rogalandi í Noregi vegna ofríkis Haraldar konungs hárfagra. Hann kom fyrst til Vestfjarða og nam land í Arnarfirði, „svo vítt sem hann vildi“, því hann kom þar að ónumdu landi. Hann var fyrsta veturinn á Tjaldanesi á norðurströnd fjarðarins, því þar hvarf sólin ekki í skammdeginu. Eftir eitt eða tvö ár frétti hann svo af Hámundi frænda sínum norður í Eyjafirði og ákvað að flytja þangað. Hann seldi þá Áni rauðfeldi landnám sitt og fluttist á brott.

Eftir því sem segir í Landnámu hafði Hámundur heljarskinn fengið land á vesturströnd Eyjafjarðar í landnámi Helga magra en nú lét hann Örn fá landnám sitt og fékk aftur land hjá Helga inni í Eyjafirði. Örn bjó í Arnarnesi, en Hámundur hafði búið á Hámundarstöðum.

Tenglar breyta

  • „Landnámabók; af Snerpu.is“.