Örlygur Böðvarsson
Örlygur Böðvarsson var íslenskur landnámsmaður sem settist að á Hornströndum.
Örlygur var sonur Böðvars Vígsterkssonar og fór frá Noregi fyrir ofríki Haraldar hárfagra. Kona hans var Signý Óblauðsdóttir Ótryggssonar, systir Högna hins hvíta og því skyld Geirmundi heljarskinni. Þau voru hjá Geirmundi fyrsta veturinn eftir komu sína til landsins en um vorið gaf Geirmundur Örlygi bú í Aðalvík og lönd þar í kring og hann eignaðist síðan alla Jökulfirði.
Sonur Örlygs og Signýjar var Ketill gufa og kvæntist hann Ýr dóttur Geirmundar heljarskinns.