Ítölsk málfræði

Ítölsk málfræði lýsir þeim reglum sem notaðar eru í ítalskri tungu. Ítölskum orðum má skipta í nokkra flokka: greina, nafnorð, lýsingarorð, fornöfn, sagnorð, atviksorð, forsetningar, samtengingar og upphrópanir.

Greinir

breyta

Óákveðinn greinir

breyta

Ótiltekni greinirinn er un/uno í karlkyni eintölu og una í kvenkyni eintölu. Myndin uno í karlkyni er notuð í orðum sem byrja á s á undan samhljóða eða gn, ps, x og einnig z. Í kvenkyni styttist una í un' fyrir framan orð sem byrja á sérhljóða. Ólíkt mörgum tungumálum hefur ítalskan óákveðinn greini í fleirtölu.

Ákveðinn greinir

breyta

Í latínu og forn-ítölsku var hvorki að finna greini né þriðju persónu persónufornöfn og þróuðust þessi orð frá sömu ábendingarfornöfnunum og hljóma því svipað, það er að segja það er -l í þeim flestum. Ákveðinn greinir er il í karlkyni, og la í kvenkyni. Á undan orðum sem byrja á sérhljóða er notað l' bæði í karl- og kvenkyni. Í karlkyni er lo notað fyrir framan orð sem byrja á s á undan samhljóða eða á gn, ps, x og einnig z. Í fleirtölu er ákveðinn karlkyns greinir i', kvenkyns le. Í karlkyni er gli notað á undan orðum sem byrja á sérhljóði, á s ásamt samhljóði, á gn, ps, x og einnig z. Til að flækja hlutina aðeins meira má finna í ítölskunni orðflokk sem ekki finnst í ensku eða íslensku, það er að segja forsetningargreini.[1]

Forsetningargreinar

breyta

Forsetningargreinir er orð þar sem forsetning og greinir hafa ruglað saman reitum sínum og runnið saman í eitt orð. Forsetningargreinar í ítölsku eru þessir:

il l' lo la i gli le
a al all' allo alla ai agli alle
di del dell' dello della dei degli delle
da dal dall' dallo dalla dai dagli dalle
in nel nell' nello nella nei negli nelle
su sul sull' sullo sulla sui sugli sulle

Sagnorð

breyta

Sagnorð beygjast eftir persónum og tölum bæði í tíðum og háttum og beygjast reglulega í meginatriðum. Innan við 50 sagnorð hafa óreglulega nútíð og um 200 hafa aðeins óreglulega þátíð og lýsingarhátt þátíðar. Lýsingarháttur nútíðar er notaður í ítölsku eiginlega nákvæmlega eins og í ensku og þar með miklu meira en í íslensku á kostnað nafnháttarins. Í frönsku hinsvegar er lýsingarháttur nútíðar notaður álíka og í íslensku og nafnháttur á sama hátt meira en í ítölsku. Fyrir einhverja gráglettni örlaganna er lýsingarháttur nútíðar í ítölsku ekki kominn af sama hætti í latínu (öfugt við frönsku), heldur af svonefndum 'gerundio' í latínu sem var einskonar tilgangsháttur. Fyrir vikið eru endingar lýsingarháttar nútíðar eilítið ólíkar í ítölsku og frönsku, það er endingin er -ando í ítölsku en -ant eða -ent í frönsku (enda-téið aldrei borið fram). Nútíðarlýsingarháttur latínu dó hreinlega út í ítölsku og 'gerundio' kom í hans stað. Nútíðarlýsingarháttarendingin í latínu var aftur -ens. Endingar lýsingarháttar þátíðar eru -so og -to. Framtíð er mynduð án hjálparorða (mun) og hefur sérstakar beygingarendingar. Fleira sem teljast mætti óvenjulegt séð frá sjónarhóli þeirra sem tala germönsk mál er 'tvöföld þátíð' eða tvær þátíðir, 'einföld' og 'fjarlæg', og felur sú fjarlæga í sér áherslu á að það sem um er rætt hafi ekki tengingu við nútímann. Fyrir vikið er venjulega þátíðin nálægari en venjulega þátíðin í ensku, þýsku eða íslensku og útskýrir venjulega eitthvað í nútíðinni.

Tilvísanir

breyta
  1. Berloco 2018

Heimildir

breyta
  • Serianni, Luca; Castelvecchi, Alberto (1997). Italiano. Grammatica, sintassi, dubbi. Milan: Garzanti.
  • Berruto, Gaetano (1987). Sociolinguistica dell'italiano contemporaneo. Roma: Carocci.
  • Berloco, Fabrizio (2018). „The Big Book of Italian Verbs: 900 Fully Conjugated Verbs in All Tenses. With IPA Transcription, 2nd Edition“. Lengu.