Ástralía (heimsálfa)

heimsálfa

Ástralía, líka kölluð Sahúl, Ástralínea eða Meganesía, til aðgreiningar frá meginlandinu Ástralíu, er heimsálfa sem nær yfir Ástralíu, Tasmaníu, Nýju-Gíneu, Seram, hugsanlega Tímor, og nærliggjandi eyjar. Rökin fyrir því að telja þessi lönd til sérstakrar heimsálfu eru þau að þau liggja öll á sama landgrunni. Höfin sem liggja milli þeirra, Arafurahaf, Torressund og Basssund, eru öll grunn og þau hafa tengst á þurru landi þegar sjávarstaða var lægri við hámark síðasta jökulskeiðs fyrir um 20.000 árum. Þegar sjávarmál tók að hækka skipti það þessu meginlandi í þurrt láglent meginlandið Ástralíu og fjallaeyjarnar tvær, Tasmaníu og Nýju-Gíneu. Lífríki landanna er þar að auki skylt.

Kort sem sýnir Ástralíuheimsálfuna.

Nýja-Sjáland er ekki hluti af þessari heimsálfu heldur er leifar sokkna meginlandsins Sjálandíu. Bæði Ástralía og Nýja-Sjáland eru skilgreind sem hlutar stærri heimsálfanna Ástralasíu og Eyjaálfu. Algengast er að nota hugtakið Eyjaálfa þegar heimsálfurnar eru taldar upp þótt hún nái yfir mörg aðskilin landgrunn í Kyrrahafi.

Ástralía er minnsta og láglendasta byggða heimsálfan. 8,5 milljón ferkílómetra eru þurrlendi og 2,5 milljón ferkílómetrar eru hafsvæðið yfir Sahúlgrunni. Helmingurinn af því er innan við 50 metrar á dýpt. Í jarðsögulegu samhengi var samfellda meginlandið kallað Ástralasía en á 8. áratugnum var farið að nota heitið Stór-Ástralía. Heitið Sahúl (dregið af landgrunninu) var tekið upp á ráðstefnu árið 1975. Árið 1984 stakk W. Filewood upp á heitinu Meganesía („Stórey“). Richard Dawkins stakk upp á heitinu Ástralínea árið 2004. Það hefur líka verið kallað Ástralía-Nýja-Gínea.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.