Ásgarður (hverfi)

Hnit: 64°08′35″N 21°55′54″V / 64.14306°N 21.93167°A / 64.14306; 21.93167

Sjá einnig Ásgarður (aðgreining).

Ásgarður eða goðahverfið er heiti á hverfishluta í miðborg Reykjavíkur í brekkunni neðan við Skólavörðuholtið (suð)vestanmegin. Svæðið markast af Óðinsgötu/Urðarstíg í vestri og suðri, Njarðargötu í austri og Skólavörðustíg í norðri. Heiti hverfisins kemur til af því að allar göturnar heita í höfuðið á goðum og gyðjum í norrænni goðafræði. Stundum hefur hverfið verið kallað guðlastið.[heimild vantar]

Hverfið er fyrst og fremst íbúðahverfi, að Skólavörðustígnum undanskildum, en þar var lengi vel mikið af atvinnuhúsnæði í bland. Miklu af þessu húsnæði var breytt í íbúðarhúsnæði í upphafi 21. aldar en enn er þó töluvert af fyrirtækjum í hverfinu, einkum við Óðinsgötu og Freyjugötu. Á mörkum Óðinsgötu, Týsgötu og Þórsgötu er lítið torg, Óðinstorg. Annað stórt opið svæði er leikvöllurinn við Freyjugötu.

Árið 2002 stakk Eva María Jónsdóttir, dagskrárgerðarkona, upp á því að þrjú torg yrðu búin til/endurheimt við Óðinsgötu; Óðinstorg við Þórsgötu, Freyjutorg við Freyjugötu og Baldurstorg við Baldursgötu. Óðinstorgi hefur verið breytt í torg á sumrin sem hluta af verkefninu „Torg í biðstöðu“ frá 2011. Baldurstorg var búið til árið 2010 og götum þar breytt í vistgötur. Freyjutorg var gert árið 2018 og lokið var við breytingar á Óðinstorgi árið 2020.

GöturBreyta

Götur í Ásgarði eru Baldursgata (að hluta), Bragagata, Freyjugata (að hluta), Haðarstígur, Lokastígur, Njarðargata, Nönnugata, Óðinsgata, Týsgata, Urðarstígur, Válastígur og Þórsgata.