Zonta International
Zonta International eru góðgerðasamtök sem hafa það meginmarkmið að skapa betri heim fyrir konur og stúlkur. Zonta-klúbbar eru starfræktir í 62 löndum og hafa yfir 29.000 meðlimi, en höfuðstöðvar samtakanna eru í Oak Brook í Illinois í Bandaríkjunum.
Samtökin voru stofnuð af hópi athafnakvenna að undirlagi leikskáldsins Marian de Forest í Buffalo í New York-fylki árið 1919. Rótarýhreyfingin var að einhverju leyti fyrirmyndin. Nafnið kemur úr lakótísku og merkir „áreiðanleg“. Upphaflega var langt og erfitt ferli að fá aðgang að Zonta-klúbbi og aðild var bundin við konur sem nutu mikillar virðingar á sínu sviði. Samtökin urðu alþjóðleg árið 1930 þegar Zonta-klúbbur var stofnaður í Vínarborg. Fyrsti Zonta-klúbburinn á Íslandi var stofnaður árið 1944.