Sögutími

(Endurbeint frá Ytri tími)

Sögutími er tími í frásögn og skiptist í innri tíma (atburði sögunnar sjálfrar) og ytri tíma (tíma sögusviðsins).[1] Í þrengri skilningi er sögutími (fr. temps de l'histoire) tíminn sem atburðir sögunnar gerast á meðan frásagnartími (fr. temps du récit) er tími sögumannsins sem segir söguna. Sögutími er líka aðgreindur frá útgáfutíma og upplifunartíma/lestrartíma.

Sem dæmi þá er sögutími (innri tími) kvikmyndarinnar Stjörnustríð: Ný von aðeins nokkrir dagar, en myndin gerist árið 0 BBY sem er ytra tímatal Stjörnustríðsheimsins. Frásagnartími er hins vegar einhvern tíma í fjarlægri framtíð miðað við sögutíma, því við lesum í upphafi myndarinnar að hún gerist „endur fyrir löngu, í fjarlægri vetrarbraut“. Útgáfutími myndarinnar er svo árið 1977, en þeir sem sáu myndina fyrst í kvikmyndahúsum á Íslandi, sem dæmi, sáu hana ekki fyrr en sumarið 1978.

Franski bókmenntafræðingurinn Gérard Genette skilgreindi sögutíma sem tímaröð þeirra atburða sem mynda frásögnina, en frásagnartíma sem niðurröðun þeirra atburða í frásögninni sem getur verið ólínuleg.

Tilvísanir

breyta
  1. Jón Gunnar Þorsteinsson (2009). „Hvað er innri tími og ytri tími?“. Vísindavefurinn.