Wikipedia:Grein mánaðarins/04, 2017
Hvalfjarðargöngin eru jarðgöng á milli Suðvesturlands og Vesturlands. Í þeim liggur Vesturlandsvegur undir utanverðan Hvalfjörð. Göngin eru samtals 5770 metrar að lengd og þar af liggja 3750 metrar undir sjó. Göngin eru að mestu tvíbreið en þrjár akreinar í hallanum norðan megin. Dýpst fara göngin 165 metra undir yfirborð sjávar og eru grafin djúpt í berggrunninn undir sjávarbotninum. Um 5.500 bílar ferðast um göngin á sólarhring en göngin voru upprunalega hönnuð fyrir aðeins fimm þúsund bíla á sólarhring.
Göngin voru grafin á árunum 1996-1998 og voru opnuð fyrir bílaumferð þann 11. júlí 1998 af þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsyni. Frá opnun ganganna hafa um 14 milljónir ökutækja farið um göngin eða um 5.500 bílar á sólarhring að meðaltali. Við byggingu ganganna var farin ný leið í slíkum stórframkvæmdum á Íslandi þar sem einkafyrirtæki stóð fyrir framkvæmdunum og fjármagnaði án aðkomu ríkissjóðs.