Wikipedia:Grein mánaðarins/02, 2017

Réttindabyltingin

Réttindabyltingin er markvert tímabil í sögu Bandaríkjanna og bandarískri stjórnmálasögu sem hófst á sjötta áratug 20. aldar. Upphaf tímabilsins má rekja til ársins 1954, þegar dómur Hæstaréttar féll í máli Brown v. Board of Education. Með dómnum var staðfest að aðskilnaðarstefnan sem hafði viðgengist innan skóla og opinberra stofnana, sérstaklega í Suðurríkjunum, væri brot á stjórnarskrá Bandaríkjanna. Dómurinn markaði afgerandi stefnubreytingu Hæstaréttar, setti kynþáttamisrétti undir smásjána, mannréttindi í forgrunn umræðunnar og leiddi til þess að lögbundin aðskilnaðarstefna var endanlega afnumin.

Hæstiréttur staðfesti stefnubreytinguna með því að taka fyrir fjölmörg sambærileg mál, meðal annarra mál Monroe v. Pape árið 1961, sem undirdómstig höfðu hafnað. Málið snerist um ofbeldi lögregluþjóna gegn fjölskyldu blökkumanna, en afar sjaldgæft var á þessum árum að slík mál kæmu fyrir æðstu dómstig. Fordæmið tryggði framgang sambærilegra mála sem einkenndust af því að opinberir aðilar virtu ekki stjórnarskrárvarin réttindi einstaklingsins. Með þessum breyttu áherslum Hæstaréttar var vernd stjórnarskrárinnar útvíkkuð og minnihlutahópum veitt réttindi til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra þjóðfélagshópa.

Fyrri mánuðir: TitanicBeyoncéBertrand Russell